Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, segir að tveir ráðherrar munu víkja úr embætti á meðan fjórir nýir koma í staðinn.Þetta kemur fram á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar fyrr í dag í Rosenbad-húsinu í Stokkhólmi.
Fráfarandi ráðherrar eru þeir Anders Ygemann innanríkisráðherra og Anna Johansson innviðaráðherra.
Í stað þeirra verður Heléne Fritzon innflytjendaráðherra, Morgan Johansson innanríkisráðherra og Tomas Eneroth innviðaráðherra. Einnig bætist Annika Strandhäll við sem félagsmálaráðherra.
Búist var við því að ríkisstjórnin myndi segja af sér á blaðamannafundi í dag, en Löfven sagðist frekar velja þennan kost þar sem hann vildi ekki senda Svíþjóð í stjórnarkreppu.
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um stjórnarkreppuna í Svíþjóð undanfarna daga, en hún stafar af meintu aðgerðarleysi Peter Hultqvist varnarmálaráðherra, Anders Ygemann innanríkisráðherra og Anna Johansson innviðaráðherra þegar þau komust að því að Samgöngustofa Svíþjóðar hafði lekið persónuupplýsingum og hernaðarleyndarmálum til verktaka sinna í stórum stíl.
Á blaðamannafundi á mánudaginn sagði Stefan Löfven að skaði vegna málsins hafi verið lágmarkaður og hann bæri enn fullt traust til allra í sinni ríkisstjórn. Í gær lögðu leiðtogar innan stjórnarandstöðublokkarinnar Alliansen svo fram vantrauststillögu á alla þrjá ráðherrana sem töldust tengjast þessu á blaðamannafundi, en í kjölfarið fundaði ríkisstjórnin saman í þrjá tíma fyrir luktum dyrum. Að fundinum loknum boðaði hún til blaðamannafundar í dag, en heimildarmenn SVT töldu þá sennilegt að hún myndi segja af sér.