Öldungadeild bandaríska þingsins hafnaði enn á ný tillögum forystu Repúblikanaflokksins um að afnema heilbrigðistryggingakerfið sem tók gildi í forsetatíð Baracks Obama, Obamacare.
Þingmenn greiddu í þetta skipti atkvæði um útvatnaða útgáfu af afnámi Obamacare en fimm sinnum hefur þingið hafnað tillögum um annað hvort afnám Obamacare og innleiðingu nýrra heilbrigðislaga – Trumpcare – eða eingöngu afnám Obamacare.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, mætti í þingsal til þess að greiða það sem átti að verða úrslitaatkvæði atkvæðagreiðslunnar. Það varð hins vegar að fýluferð því John McCain, þingmaður frá Arizona og fyrrverandi forsetaframbjóðandi repúblikana, ákvað að greiða atkvæði gegn nýjustu tillögunni.
McCain gekkst nýverið undir aðgerð eftir að hafa greinst með heilaæxli. Hann hefur hins vegar verið í Washington þessa vikuna vegna þess að „hann ætlaði ekki að láta atkvæði sitt falla dautt“ vegna veikinda sinna. Hann útskýrði afstöðu sína svona á Twitter:
Af öllum 101 atkvæðunum sem greidd voru 49 repúblikanar sem greiddu atkvæði með útvötnuðu afnámi Obamacare en samtals 51 sem kusu gegn tillögunni. Þar af voru þrír þingmenn Repúblikanaflokksins.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, skrifaði á Twitter í kjölfar atkvæðagreiðslunnar:
Mikill skellur fyrir Mitch McConnell
Leiðtogi repúblikana á bandaríska þinginu, Mitch McConnell, aflýsti þingfundi sem átti að halda í dag eftir að úrslit atkvæðagreiðslunnar voru ljós í nótt. Talið er að nú sé komið á leiðarenda herfarar repúblikana í þinginu gegn Obamacare, í það minnsta í bili, enda hafa tillögur flokksins verið felldar sex sinnum.
Repúblikanaflokkurinn og fulltrúar hans hafa lofað því í sjö ár, eða síðan Obamacare var samþykkt og leitt í lög, að afnema lögin og fá ný staðfest þegar flokkurinn stjórnaði öllum stofnunum löggjafar- og framkvæmdavaldsins.
Það gerðist svo í fyrsta sinn á þessum sjö árum í janúar að forseti úr röðum repúblikana tók við völdum í Hvíta húsinu. Hann hefur hins vegar sýnt að hann hafi einfaldlega ekki nógu yfirgripsmikla þekkingu á gangi mála í þinginu – hvað þá á heilbrigðistryggingakerfinu – til þess að verða öflugur frummælandi nýrra heilbrigðislaga.
Þegar hefur verið reynt að smíða og leggja til nýtt heilbrigðiskerfi sem kæmi í staðinn fyrir Obamacare; Trumpcare. Því kerfi hefur verið hafnað og öllum útfærslum á því enda þóttu þær tillögur lélegar og innantómar. Þingmenn úr báðum flokkum fengu að heyra það í kjördæmum sínum. Þess vegna var ákveðið að láta á það reyna að efna helminginn af loforðinu og afnema löggjöf Obama. Það hefur ekki tekist þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.