Jeff Bezos, framkvæmdastjóri Amazon, féll aftur niður í annað sætið yfir ríkustu menn heims eftir að hafa dvalið á toppi listans í nokkra klukkutíma. Þetta kom fram í frétt Tech Crunch í gærkvöldi.
Samkvæmt lista Bloomberg yfir ríkustu menn heims hafði Bezos tekið toppsætið frá Bill Gates í gær, en Gates hefur trónað á toppi listans með hléum í nær tvo áratugi. Ástæða auðsaukningar Bezos var mikil hækkun í hlutabréfaverði Amazon, en við lok markaða í gær var auður Bezos metinn á 90,9 milljarða Bandaríkjadala á meðan Gates var metinn á 90,7 milljarða.
En Adam var ekki lengi í paradís. Eftir lokun markaða í gær birti Amazon ársfjórðungsuppgjör sitt, þar sem framlegðartölur voru undir væntingum. Í kjölfar birtingarinnar lækkaði hlutabréf í fyrirtækinu um 3% og Bezos varð aftur næst ríkasti maður heims með auð metinn á 89,3 milljarða Bandaríkjadala.
Á öðrum ársfjórðungi var framlegð Amazon 197 milljónir dala, samanborið við 857 milljónir dala fyrir sama tímabil í fyrra. Hagnaður á hlut voru 40 sent, en samkvæmt frétt Tech Chrunch bjuggust greinendur við 1,42 dala hagnaði á hlut.
Amazon hefur farið mikinn það sem af er árs, en Kjarninn greindi frá því í síðasta mánuði þegar fyrirtækið keypti Whole Foods á 1,3 milljarða Bandaríkjadala. Búist er við því að Amazon verði ráðandi í netverslun á næstu misserum, en fyrirtækið hyggst umbylta henni með Amazon Go búðunum, sem þau kynntu síðastliðinn desember.