Vísindamenn um allan heim freista þess nú að finna lausn á loftslagsvandanum sem steðjar að mannkyninu. Engin töfralausn mun leysa öll þau vandamál sem munu fylgja hlýnun loftslags eða koma í veg fyrir frekari hlýnun. Vígstöðvarnar eru þess vegna fjölmargar.
Einn þeirra geira sem talið er mögulegt að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda frá er landbúnaður. Áhrif landbúnaðar á loftslagið eru margþætt; Allt frá breyttri landnotkun til útblásturs hættulegra lofttegunda.
Lausnirnar sem lagðar hafa verið til eru margþættar, og sumar eru róttækari en flestir kæra sig um. Ein tillagan er að láta kýr prumpa og ropa minna.
Í nýlegri rannsókn sem gerð var við James Cook-háskóla í Ástralíu fjallar einmitt um þetta: Ef sjávarþangi er blandað við fóður nautgripa í smáum skömmtum – aðeins tvö prósent fóðursins – er hægt að minnka metanprump og -rop dýranna um 90 prósent. Þörungarnir sem prófaðir hafa verið heita Asparagopsis taxiformis og falla í fylkingu rauðþörunga, eins og söl sem er einn þeirra þörunga sem notaður hefur verið til manneldis. Þetta hefur einnig verið prófað á sauðfénaði með svipað jákvæðum niðurstöðum.
Kýr eru falla í flokk jórturdýra og þær hafa fjóra maga sem gerir dýrunum kleift að borða illmeltanlega fæðu eins og gras. Þetta hefur hins vegar þær aukaverkanir að mikið magn metangass verður til í maga dýranna sem þau losa sig við og út í andrúmsloftið.
Metan er talið vera ein skaðlegasta gróðurhúsalofttegundin. Til samanburðar við koldíoxíð, sem er algengasta gróðurhúsalofttegundin, þá hefur metan 84 sinnum áhrifaríkari hlýnunaráhrif á fyrstu tveimur áratugunum sem það er í andrúmsloftinu. Áhrifin eru svo allt að 25 sinnum meiri en af koldíoxíði yfir 100 ára tímabil.
Meðalkú getur losað um það bil 70 til 120 kíló af metangasi á hverju ári. Það er mikið metan, svona miðað við að fjöldi kúa í heiminum sé um 1,5 milljarðar.
Hingað til hefur lausnin við þessu sérstaka vandamáli falist í því að hvetja fólk til að borða minna af nautakjöti og neyta minna af afurðum kúa. Þannig væri hægt að minnka fjölda kúa og um leið metanmengun andrúmsloftsins. Hér er hins vegar komin leið sem gæti fært landbúnað nær sjálfbærni – í það minnsta tímabundið þar til mannkynið fer að byggja fæðu sína meira á grænmeti og ávöxtum.
Nú er verið að rannsaka hver áhrif þessarar aðferðar við að breyta fæðu nautgripa eru í stærra samhengi. Niðurstöður þeirrar rannsóknar ættu að liggja fyrir á næstu vikum.