Kynjakvótar hafa jákvæð áhrif á framboðslista stjórnmálaflokka þar sem þeir fjölga hæfum kvenkyns stjórnmálamönnum á kostnað minna hæfra karlkyns stjórnmálamanna. Þetta eru niðurstöður fræðigreinar sem birt verður í næsta tölublaði American Economic Review. Fyrra uppkast greinarinnar má lesa hér.
Rennilásakvótinn
Kynjakvótakerfi í einhvers konar mynd meðal stjórnmálaflokka er til staðar í meira en hundrað löndum. Gagnsemi slíks kerfis hefur verið umdeild, en margir andstæðingar kynjakvóta segja þá koma í veg fyrir að stjórnmálamenn komist áfram á eigin verðleikum.
Höfundar umræddrar greinar komust hins vegar að annarri niðurstöðu þegar þeir könnuðu alla frambjóðendur sveitastjórnakosninga í Svíþjóð á tímabilinu 1982-2014. Árið 1993 var svokallaður „rennilásakvóti“ (zipper quota) innleiddur af Sósíaldemókrataflokkinum, en skoðuð voru áhrif kvótans á hæfni frambjóðendanna sem stjórnmálamenn. Rannsóknin leiddi í ljós að hæfni frambjóðenda jókst með innleiðingu kynjakvóta, sérstaklega í þeim sveitarfélögum þar sem aukning á kvenkyns frambjóðendum var mest.
Elíta miðlungs hæfra karlmanna
Útskýring á niðurstöðunum var á þá leið að kvótarnir nái að leiðrétta kerfisbundinn galla sem felist í fulltrúalýðræði. Samkvæmt höfundum greinarinnar er hætta á að formaður stjórnmálaflokks stilli ekki hæfustu stjórnmálamennina upp á listum sínum af ótta við að stöðu hans verði ógnað. Þannig geti vítahringur orðið til þar sem miðlungs stjórnmálamenn velji sér aðra miðlungs stjórnmálamenn til þess að tryggja sína stöðu innan flokksins.
Með kynjakvótum næst hins vegar að brjóta upp þennan vítahring þar sem miðlungs stjórnmálamönnum verði rutt út fyrir hæfari kvenkyns stjórnmálamenn. Að mati greinarhöfunda gætu kvótarnir með öðrum orðum raskað þeim öflum sem viðhalda elítu miðlungs hæfra karlmanna í valdastöðum.