Anthony Scaramucci, sem ráðinn var sem samskiptastjóri Hvíta hússins fyrir tíu dögum síðan, hefur verið rekinn úr starfinu, að sögn New York Times. Í frétt blaðsins kemur fram að hinn litríka Scaramucci, sem gengur einnig undir nafninu „The Mooch“, hafi verið vikið til hliðar að beiðni John. F. Kelly, nýráðins starfsmannastjóra Hvíta hússins.
Scaramucci hafði ítrekað greint frá því opinberlega að hann heyrði beint undir Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, en ekki starfsmannastjóra hans. Kelly hélt hins vegar fund með starfsfólki Hvíta hússins í dag þar sem hann gerði því ljóst að hann réði málum.
New York Times segir það ekki liggja fyrir hvort Scaramucci fái aðra stöðu innan Hvíta hússins eða hvort hann muni yfirgefa það fyrir fullt og allt í kjölfar þessarra vendinga.
Skrautlegir dagar
Scaramucci var ráðinn 21. júlí síðastliðinn. Sú ráðning varð til þess að hinn umdeildi Sean Spicer sagði upp sem fjölmiðlafulltrúi forseta Bandaríkjanna. Ástæðan var djúpstæður ágreiningur við Scaramucci.
Síðan þá hefur Scaramucci verið nánast stanslaust í fjölmiðlum. Hann lét hörð orð falla í garð Reince Priebus, þáverandi skrifstofustjóra Hvíta hússins í símtali sem hann átti við blaðamann tímaritsins New Yorker þar sem hann sagði Priebus m.a. vera „vænisjúkan geðklofasjúkling“. Hann lét einnig þung orð falla um Steve Bannon, einn helsta ráðgjafa Trump.
Priebus var svo rekinn úr starfi fyrir helgi. Trump tilkynnti um það og ráðningu Kellys sem nýs starfsmannastjóra á Twitter.