Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknarflokksins, segir að það felist „sokkinn kostnaður“ í því fyrir Reykjavíkurborg að taka við börnum hælisleitenda í grunnskóla borgarinnar. Hún segir að þeirri hugmynd hafi skotið upp hvort eðlilegt sé að börn hælisleitenda verði sett í sérstakan skóla þar til að ákvörðun liggi fyrir um hvort fjölskyldur þeirra fái dvalarleyfi eða ekki. Þetta kom fram í viðtali við Sveinbjörgu Birnu á Útvarpi Sögu í gær.
Sveinbjörg Birna er oddviti Framsóknarflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. Hún náði kjöri eftir mikla fylgisaukningu flokksins á síðustu dögum fyrir kosningarnar 2014. Sú fylgisaukning kom til eftir að Sveinbjörg Birna kom í viðtal átta dögum fyrir kosningarnar og sagði m.a. að „á meðan við erum með þjóðkirkju eigum við ekki að úthluta lóðum undir hús eins og moskur eða kirkjur fyrir grískuréttrúnaðarkirkjuna“. Í viðtali við Vísi sagðist hún hafa „búið í um eitt ár í Sádí Arabíu og byggi þessa skoðun mína ekki á fordómum, heldur reynslu.“
Hún sagði að með þessu ætti hún ekki við að það væri eftirsjá eftir því að kenna börnum hælisleitenda að lesa og skrifa. En þegar þau séu sett í bekki í skólum án aðgreiningar verði mjög mikill fókus á þessa nemendur. Það bitni á öðrum nemendur. „Þess vegna hefur þeirri hugmynd alveg skotið upp hvort að það sé eðlilegt að það sé bara sér skóli, stofnun, sem taki við þessum börnum sem eru að koma með foreldrum í leit að alþjóðlegri vernd og síðan þegar viðkomandi fjölskylda er þá komin með dvalarleyfi á Íslandi, að þá fari þeir inn í skólana.“