HS Orka mun ekki selja 30 prósent hlut sinn í Bláa lóninu. Fulltrúar íslenskra lífeyrissjóði, sem eiga 33,4 prósent hlut í orkufyrirtækinu í gegnum félagið Jarðvarma, beittu í síðustu viku neitunarvaldi sínu og höfnuðu fyrirliggjandi tilboði frá sjóði í stýringu Blackstone, eins stærsta fjárfestingarsjóðs heims, í hlutinn. Tilboðið var upp á rúma 11 milljarða króna. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Miðað við tilboðið er heildarmarkaðsvirði Bláa lónsins um 37 milljarðar króna.
Auglýstur til sölu í maí
HS Orka sendi frá sér tilkynningu um miðjan maí síðastliðinn þar sem fram kom að það ætlaði að kanna mögulega sölu á hlut sínum í Bláa lóninu, í heild eða að hluta. Stöplar Advisory sáu um að ræða við hugsanlega fjárfesta og stýra ferlinu fyrir hönd HS Orku, en í tilkynningunni kom fram að þessi ákvörðun væri tekin í kjölfarið á sýndum áhuga á hlutnum í Bláa lóninu.
„HS Orka hefur verið hluthafi í Bláa Lóninu frá upphafi og hefur stolt stutt við vöxt þess. Bláa Lónið er nú með umfangsmikinn rekstur, dafnar og er enn í verulegum vexti. Þrátt fyrir að um einstaka eign sé að ræða og þá fellur starfsemi Bláa Lónsins ekki að kjarnastarfsemi HS Orku sem er framleiðsla og sala endurnýjanlegrar orku. Því ákváðum við að hefja þetta ferli,“ var haft eftir Ásgeiri Margeirssyni, forstjóra HS Orku, í fréttatilkynningunni.
Meirihlutaeigendur ósáttir með að tilboði væri hafnað
Magma Energy, dótturfélag Alterra, á 66,6 prósent hlut í HS Orku, sem síðan á 30 prósent hlut í Bláa lóninu. Ross Beaty, forstjóri og stjórnarformaður Alterra orkufyrirtækisins sem skráð er á markað í Kanada, sagði á heimasíðu þess í maí síðastliðnum að eftir mikinn vöxt og árangursmikla uppbyggingu Bláa lónsins, þá sé það mat HS Orku að nú væri góður tímapunktur til að selja hlutinn í Bláa lóninu.
Í Fréttablaðinu er greint frá því að mikillar óánægju gæti hjá stjórnendum Alterra með ákvörðun lífeyrissjóðanna, sem eiga minnihluta í HS Orku, um að hafna tilboði Blackstone. Tilboð bandaríska fjárfestingarsjóðsins hafi verið nokkuð yfir væntingum stjórnar HS Orku þegar ákveðið var setja hlut félagsins í Bláa lóninu í söluferli. Lífeyrissjóðirnir gátu komið í veg fyrir söluna þar sem að í hluthafasamkomulagi HS Orku er tiltekið að allar meiriháttar ákvarðanir fyrirtækisins, eins og um sölu á hlutnum í Bláa lóninu, þurfi samþykki stjórnar Jarðvarma.
Hagnaður HS Orku í fyrra nam 2,7 milljörðum króna og heildartekjur 7,1 milljarði króna. Heildareignir félagsins voru bókfærðar á tæplega 50 milljarða króna. Óhætt er því að segja að rekstur félagsins sé í góðu horfi þessa dagana.
Hluturinn í Bláa lóninu var metinn á 1,8 milljarða króna í ársreikningi sem þýðir að félagið var metið á um sex milljarða króna samkvæmt þeim mælikvarða. Ljóst er, miðað við tilboð Blackstone, að virði Bláa lónsins er verulega vanmetið í bókum HS Orku.
Einungis arðgreiðslan til hluthafa Bláa lónsins nam 1,4 milljarði, vegna ársins 2015. Hagnaður Bláa lónsins á því ári nam 2,2 milljörðum króna eftir skatta. Á árinu 2014 voru heildartekjur fyrirtækisins 6,1 milljarður en hagnaðurinn var 1,8 milljarðar króna, eftir skatta. Tæplega þriðja hver króna sem kom í kassann var því hreinn hagnaður.