Um 23 prósent Íslendinga eru ánægðir með fjölmiðla á Íslandi. Það er örlítið stærri hópur en segist vera óánægður með íslenska fjölmiðla; Sá hópur mældist 20 prósent. 10 prósent segja það mjög mismunandi eftir því hvaða fjölmiðla er spurt um.
Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu sem send var fjölmiðlum í dag. Könnunin var gerð dagana 12. til 17. júlí síðastliðinn. Svarendur voru 1.596 talsins.
Lang flestir sem svöruðu spurningunni: „Almennt séð ertu ánægð(ur) eða óánægð(ur) með fjölmiðla á Íslandi?“ höfðu ekki sterka skoðun, 47 prósent svöruðu „í meðallagi“.
Ánægja með íslenska fjölmiðla
Ánægjan
Ekki er mikill munur á svörum fólks um ánægju til fjölmiðla þegar þau eru borin saman við stjórnmálaskoðanir. Fylgismenn Pírata og Framsóknarflokksins draga meðaltalið þó niður. 13,3 prósent þeirra sem myndu kjósa Pírata ef kosið væri í dag voru ánægð með fjölmiðla og 17,7 prósent þeirra sem ætla að kjósa Framsóknarflokkinn.
Skipting svarenda eftir stjórnmálaafstöðu
Þeir svarendur sem hyggjast kjósa Samfylkinguna, Bjarta framtíð, Viðreisn eða Vinstri græna eru ánægðastir með fjölmiðla á Íslandi.
Óánægja með fjölmiðlana er mest meðal þeirra sem hyggjast kjósa Pírata eða 31,4 prósent. Fjórðungur kjósenda Sjálfstæðisflokksins er óánægður með fjölmiðla, og fimmtungur kjósenda Bjartrar framtíðar og Samfylkingarinnar eru óánægðir.
Fjölmiðlar háðir hagsmunaaðilum
47 prósent svarenda sagðist finnast íslenskir fjölmiðlar vera háðir hagsmunaaðilum. 12 prósent telja fjölmiðlana vera óháða og 17 prósent segja það mjög mismunandi eftir fjölmiðlum hvort þeir séu óháðir eða háðir. Mikill meirihluti svarenda í könnun Maskínu segir það hins vegar skipta miklu máli að fjölmiðlar séu óháðir, eða 87 prósent þeirra sem tóku afstöðu til spurningarinnar.
Hagsmunir fjölmiðla
Kjósendur Viðreisnar og Framsóknarflokksins eru frekar á þeirri skoðun að íslenskir fjölmiðlar séu óháðir hagsmunaöflum en kjósendur annara flokka. Um það bil helmingur kjósenda allra flokka telja fjölmiðlana vera háða hagsmunaaðilum. Kjósendur Viðreisnar, Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins skera sig svo úr þegar kemur að fjölda þeirra sem segja það mismunandi eftir fjölmiðlum hvort þeir séu háðir eða óháðir hagsmunaaðilum.
Skipting svarenda eftir stjórnmálaafstöðu
Ríkisútvarpið á að vera áfram ríkisrekið
Spurt var um afstöðu svarenda til einkavæðingar Ríkisútvarpsins. 66,6 prósent Íslendinga eru andvígir því að Ríkisútvarpið verði einkavætt. Einungis 16,1 prósent segjast vera því hlynnt og 17,3 segjast ekki hafa sterka skoðun á því.
Á að einkavæða Ríkisútvarpið?
Afstaða fólks til einkavæðingar RÚV skiptist nokkuð skýrt eftir stjórnmálaskoðunum. Kjósendur Sjálfstæðisflokksins og Viðreisnar eru frekar hlynnt einkavæðingu en kjósendur annara flokka. Kjósendur Samfylkingarinnar og Vinstri grænna eru hins vegar frekar andvíg einkavæðingu en kjósendur annara flokka.