Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, segir að ummæli Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, oddvita flokksins í Reykjavíkurborg, um að börn hælisleitenda væru „sokkinn kostnaður“ fyrir borgina séu óheppileg og klaufsk. Það eigi ekki að tala með þessum hætti um börn. Þetta kemur fram á vef RÚV.
Þar er haft eftir Sigurði Inga að ummælin endurspegli ekki stefnu Framsóknarflokksins. „Við höfum byggt okkar umræðu meðal annars á síðasta flokksþingi á því að aðlögun barna af erlendum uppruna séu okkar samfélagi mjög mikilvæg og að menntakerfið sé besti vettvangurinn til þess. Ég lít svo á að þessi ummæli Sveinbjargar séu bæði óheppileg og klaufsk, maður talar ekki svona um börn.“
Sigurður Ingi bættist þar í stóran hóp Framsóknarmanna sem hafa fordæmt ummælin. Þeirra á meðal eru Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, sem er líka borgarfulltrúi flokksins í Reykjavík, og ungir Framsóknarmenn.
Sagði börn hælisleitenda bitna á öðrum börnum
Sveinbjörg Birna fór í útvarpsviðtal á Útvarpi Sögu fyrir viku síðan og sagði þar að það fælist „sokkinn kostnaður“ í því fyrir Reykjavíkurborg að taka við börnum hælisleitenda í grunnskóla borgarinnar. Hún sagði að þeirri hugmynd hafi skotið upp hvort eðlilegt sé að börn hælisleitenda verði sett í sérstakan skóla þar til að ákvörðun liggi fyrir um hvort fjölskyldur þeirra fái dvalarleyfi eða ekki.
Sveinbjörg Birna ræddi þessi mál í viðtalinu við Útvarp Sögu fyrir viku síðan. Þar sagði hún að stjórnmálamenn þyrftu að hugsa sinn gang verulega ef það væri þannig að þöggun ætti að ríkja um óþægilega hluti. Hún ræddi síðan málefni innflytjenda á Íslandi og meintan kostnað sem þeim fylgir. Sveinbjörg Birna nefndi engar tölur í þeim efnum en sagði að það fylgdi t.d. mikill kostnaður því fyrir grunnskóla Reykjavíkur að taka við börnum sem væru að sækja eftir hæli hérlendis. Þessi börn stoppi stutt við og hætti í skólanum ef að fjölskyldum þeirra sé vísað úr landi eftir ákveðinn tíma. „Þá er þetta að einhverju leyti sokkinn kostnaður hjá Reykjavíkurborg.“
Hún sagði að með þessu ætti hún ekki við að það væri eftirsjá eftir því að kenna börnum hælisleitenda að lesa og skrifa. En þegar þau séu sett í bekki í skólum án aðgreiningar verði mjög mikill fókus á þessa nemendur. Það bitni á öðrum nemendur. „Þess vegna hefur þeirri hugmynd alveg skotið upp hvort að það sé eðlilegt að það sé bara sér skóli, stofnun, sem taki við þessum börnum sem eru að koma með foreldrum í leit að alþjóðlegri vernd og síðan þegar viðkomandi fjölskylda er þá komin með dvalarleyfi á Íslandi, að þá fari þeir inn í skólana.“