Gróðureldar hafa farið um meira en 4.856 ferkílómetra um Bresku kólumbíu á vesturströnd Kanada síðan fyrsti neistinn kveikti elda í byrjun júlí. Undanfarnar vikur hafa eldarnir breitt úr sér. Heitt, þurrt og vindasamt veður kyndir undir bálinu.
Þetta eru þegar orðnir næst skæðustu gróðureldar á ársgrundvelli í sögu fylkisins Bresku kólumbíu. Sögulega er versti mánuður gróðureldatímabilsins í ágúst og þess vegna er líklegt að árið 2017 raði sér ofar í sögubækurnar þegar það er úti.
Hægt er að skoða yfirlitskort af því hvar eldarnir loga á vef Google. Frá þessu er greint á vef Climate Central.
Það er ekki aðeins í Kanada sem gróðureldar loga því stór svæði brenna einnig í Rússlandi, Alaska, á vesturströnd Grænlands og í Evrópu. Aukin tíðni gróðurelda á norðlægum slóðum er talin vera fylgifiskur þess að norðurhvel jarðar hefur hlýnað tvisvar sinnum hraðar en restin af hnettinum.
Mikið magn kolefnis er bundið í þessum skógum og þess vegna er það einstaklega þungbært að þeir brenni svo hratt enda eykur það aðeins á útstreymi gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu.
Miklir reykmekkir breiðast jafnframt um stóran hluta Kanada og nyrstu ríki Bandaríkjanna. Búast má við að mökkurinn leggist yfir stórar borgir á borð við Vancouver, Edmonton, Winnipeg og Seattle. Hægt er að skoða yfirlitskort af áhrifasvæði skógareldanna hér.
Grænlensku eldarnir
Á Grænlandi loga nú eldar um það bil 150 kílómetra norðaustur af Sisimiut á vesturströnd landsins. Jafnvel þó það hafi áður gerst að svo miklir gróðureldar læsi sig í jarðveginn á Grænlandi að gervihnettir greini þá úr lofti er það óvanalegt.
Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem unnið er að við háskóla í Hollandi hefur fjöldi gróðurelda á Grænaldi sem greinanlegir eru frá gervihnöttum aukist gríðarlega á þessu ári miðað við öll árin sem könnuð hafa verið aftur til ársins 2002.
Ekki er víst hvernig þessir eldar sem sjást á myndinni hér að ofan kviknuðu en líklega hefur hann læst sig í mór. Sisimut er næst fjölmennasta þéttbýli á Grænlandi á eftir Nuuk.
Evrópsku eldarnir
Miklir eldar geisa nú á Balkanskaga en í Evrópu er nú einhver mesta hitabylgja sem um getur. Henni fylgja ofsafengin veður, hvort sem það er í formi gríðarlegra hita og þurrka, helli rigningar og flóða eða hvað eina.
Gróðureldar brenna einnig á Spáni, í Portúgal og Ítalíu. Það hefur sumstaðar valdið því að ferðamannastöðum hefur verið lokað vegna slæmra loftskilyrða og beinnar hættu af eldinum.
Þegar hafa sex látist vegna eldanna.