„Ég hélt raunverulega að það væri möguleiki að hann myndi ranka við sér, en hafði rangt fyrir mér,“ viðurkenndi Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna og loftslagsaktívisti, í viðtali við bandaríska þáttastjórnandann Bill Maher á dögunum. Gore hafði rætt við Donald Trump, þá nýkjörinn forseta Bandaríkjanna, áður en hann tók við embætti um loftslagsmál.
„Þegar hann flutti ræðuna um að hann myndi draga Bandaríkin úr Parísarsamkomulaginu fór ég að hafa áhyggjur af því að fleiri ríki myndu nota tækifærið og draga sig út líka,“ hélt Gore áfram. „En strax næsta dag öll veröldin eins og hún lagði sig endurstaðfesti hollustu sína við samkomulagið.“
Gore segist telja að yfirlýsing Trumps hafi haft þver öfug áhrif við það sem forsetinn ætlaði sér. Einstaka ríki Bandaríkjanna hafi skerpt á loftslagsáætlunum sínum og fyrirtæki hafi lýst yfir kostnaðarsömum aðgerðum til að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda.
Óþægilegt framhald
Al Gore er stjarna nýrrar kvikmyndar sem frumsýnd var í lok júlí. Það er framhaldsmynd kvikmyndarinnar An Inconvenient Truth, Óþægilegi sannleikurinn, síðan 2006. Framhaldið heitir An Inconvenient Sequel eða Óþægilegt framhald þar sem fjallað er um loftslagsvanda heimsins og þau skref sem tekin hafa verið til að milda áhrif loftslagsbreytinga.
Fyrri myndin hlaut Óskarsverðlaun árið 2006 en þar var loftslagsvandinn útskýrður og rætt hvers vegna mannkynið þarf að bregðast við yfirvofandi hættum.
Í framhaldsmyndinni ferðast Gore um heiminn og reynir að sannfæra stjórnmálaleiðtoga til að fjárfesta í endurnýjanlegri orku. Myndin fjallar að miklu leyti um þá þróun sem varð til þess að Parísarsamkomulagið varð að veruleika í desember 2015.
Framhaldsmyndin var frumsýnd í Bandaríkjunum 28. júlí síðastliðinn.