Forsetaembættið í Bandaríkjunum hefur sérstaka loftslagsúttekt til skoðunar um þessar mundir. Bandarískir fjölmiðlar, sem hafa loftslagsúttektina undir höndum, segja forsetaembættið hafa leynt tilveru skýrslunnar.
Í úttektinni lýsa vísindamenn sem starfa við 13 alríkisstofnanir í Bandaríkjunum hinum víðtæka skaða sem hlýnun jarðar hefur þegar haft í för með sér í Bandaríkjunum.
Donald Trump og ríkisstjórn hans hefur sagst ætla að hætta stuðningi sínum við Parísarsamkomulagið. Í takt við það hefur forsetinn skipað annálaðan efasemdamann um loftslagsbreytingar yfir Umhverfisstofnun Bandaríkjanna. Síðan Trump tók við embætti forseta í janúar hefur hann einnig snúið tilskipunum Baracks Obama, forvera síns í embætti, sem lúta að baráttunni við loftslagsbreytingar.
Úttektin sem vísindamennirnir hafa sent til Washinton kallast Climate Science Special Report. Þar segir að það sé „mjög líklegt“ að meira en helmingur hlýnunarinnar síðustu fjóra áratugi eða svo sé vegna athafna manna. Það gengur þvert á staðhæfingar Trump-stjórnarinnar um að ábyrgð manna í loftslagsbreytingum sé óþekkt stærð.
Frá þessu er meðal annars greint á vef Washington Post sem hefur úttektina undir höndum. Um drög að úttektinni er að ræða en hún hefur þegar hlotið ítarlega skoðun. Þar kemur fram það mat að mannlegar athafnir hafi leitt til hlýnunar um 1,98 til 2,34 gráður frá 1951 til 2010.
„Margar vísbendingar eru um að mannlegar athafnir, þá sérstaklega útblástur gróðurhúsalofttegunda, séu aðalástæðan fyrir loftslagsbreytingum undanfarið,“ segir í úttektinni. „Það eru engar aðrar skýringar, og engir náttúrulegar hringrásir sem hægt er að finna í gögnunum sem geta útskýrt loftslagsbreytingarnar sem þegar hafa orðið.“
Enn er óvíst hvernig yfirvöld í Hvíta húsinu munu bregðast við úttektinni. Margir vísindamenn eru sagðir líta á þetta sem tilraunaverkefni um afstöðu stjórnvalda til vísinda eins og þau leggja sig.