Hlutabréf í Högum hafa lækkað um 8,51 prósent frá því að markaðir opnuðu í morgun í 62 milljóna króna viðskiptum. Ástæðan er án efa afkomuviðvörun sem félagið sendi frá sér eftir lokun markaða á föstudag, þar sem greint var frá því að bráðabirgðauppgjör fyrir júlímánuð sýndi að sölusamdráttur í magni og krónum átti sér áfram stað í júlí líkt og í júnímánuði.
Í tilkynningu til Kauphallar sagði að ljóst sé „að breytt staða á markaði hefur mikil áhrif á félagið.“ Gera má ráð fyrir að EBITDA Haga, sem er skráð félag á markaði, verði um 20 prósent lægri fyrir tímabilið mars til ágúst 2017 en á sama tímabili í fyrra. Þetta er í annað sinn sem Hagar senda frá sér afkomuviðvörun á tveimur mánuðum. Sú fyrri var send út í byrjun júlí og var vegna þess að uppgjör fyrir júnímánuð sýndi umtalsverðan samdrátt milli ára.
Markaðsvirði Haga hefur hríðfallið eftir að Costco opnaði í maí. Daginn áður en að Costco opnaði var markaðsvirði Haga 64,6 milljarðar króna. Fyrir opnun markaða í morgun var það 46,1 milljarður króna og þegar þessi frétt er skrifuð er markaðsvirðið 42,2 milljarðar króna.