Bandaríska alríkislögreglan FBI gerði óvænta húsleit hjá Paul Manafort, fyrrverandi kosningastjóra í kosningabaráttu Donalds Trump Bandaríkjaforseta, í lok síðasta mánaðar. The Washington Post greindi fyrst frá þessu.
Lögreglufulltrúarnir eru sagðir hafa birst óvænt á heimili Manafort í Alexandríu í Virginíu-ríki, með leitarheimild. FBI lagði þar hald á skjöl og aðra muni. Heimildarmenn Washington Post er fólk sem þekkir til rannsóknarinnar á meintu leynimakki kosningabaráttu Donalds Trump með rússneskum stjórnvöldum í aðdraganda forsetakosninga vestanhafs á síðasta ári.
Alríkisfulltrúarnir knúðu dyra snemma morguns 26. júlí síðastliðinn, daginn eftir að Paul Manafort sjálfur hafði borið vitni af fúsum og frjálsum vilja fyrir leyniþjónustunefnd öldungadeildar bandaríska þingsins.
Talsmaður Manaforts staðfesti við fjölmiðla að lögreglan hafi lagt hald á gögn á heimili kosningastjórans. Manafort er sagður hafa aðstoðað við leitina á heimili hans.
Sótti fundinn með rússneska lögmanninum
Paul Manafort sat fundinn fræga með rússneska lögmanninum Nataliu Veselnitskaya fyrir hönd kosningabaráttu Trumps ásamt syni forsetaframbjóðandans, Donald Trump yngri, og tengdasyni forsetans, Jared Kushner.
Manafort fékk einnig öll tölvubréfin sem Donald Trump yngri gerði opinber fyrr í sumar þar sem fundurinn er skipulagður með það að markmiði að fá upplýsingar frá rússum sem gætu skaðað forsetaframboð Hillary Clinton, frambjóðanda Demókrataflokksins.
Fundurinn fór fram í Trump-turni í New York 9. júní 2016, tveimur vikum eftir að Donald Trump hafði tryggt sér útnefningu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar. Efni fundarins er talið vera lykilatriði í svarinu við meginspurningum þeirra sem rannsaka meint tengsl kosningabaráttu Trumps við Rússa. New York Times segir hér vera komna fyrstu opinberu vísbendinguna um að í það minnsta einhverjir viðriðnir kosningabaráttuna hafi verið ginnkeyptir fyrir hjálp frá Rússlandi.
Ekki er víst að rússneski lögmaðurinn, Natalia Veselnitskaya, hafi reitt fram upplýsingar um Clinton.
Sérstaki saksóknarinn Robert Mueller fer með rannsókn málsins af hálfu bandarískra stjórnvalda. Mueller var ráðinn til þess að rannsaka meint áhrif Rússa á bandarísku kosningarnar á síðasta ári og samskipti kosningabaráttu Trumps við rússneska ráðamenn og umboðsmenn þeirra. Fyrir vikið hefur Mueller sætt gagnrýni forsetans sem segir sögurnar allar uppspuna frá A-Ö, jafnvel þótt sýnt hafi verið fram á annað.