Stjórn smásölufyrirtækisins Haga hefur ákveðið að áfrýja ekki niðurstöðu Samkeppniseftirlitsins um að hafna samruna Haga og Lyfju síðan 17. júlí síðastliðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar í dag.
Hagar telja að sama niðurstaða muni koma úr áfrýjunarferlinu, enda „er ljóst að niðurstaða áfrýjunarnefndar myndi að mestu byggja á endurskoðun á þeim upplýsingum sem þegar hefur verið aflað af eftirlitinu“, eins og segir í tilkynningunni sem barst í dag.
„Það er mat Haga að með ákvörðun sinni hafi Samkeppniseftirlitið svipt neytendur þeim ávinningi sem samruninn gaf færi á, m.a. með lægra vöruverði og betra aðgengi að vörum,“ segir ennfremur í tilkynningunni.
Kaupsamningurinn hafði verið undirritaður með fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins, að því er segir í tilkynningu frá Högum til Kauphallarinnar sem barst 17. júlí. Fyrirvörum vegna niðurstöðu áreiðanleikakönnunar var aflétt í apríl sl., en Samkeppniseftirlitið hefur nú með úrskurði hafnað samrunanum. „Niðurstaðan er vonbrigði og mun félagið taka hana til sérstakrar skoðunar næstu daga. Þá ber að árétta að Hagar höfðu ekki tekið við rekstri Lyfju og mun ákvörðunin því ekki hafa áhrif á áður birt reikningsskil félagsins,“ segir í tilkynningunni.
Hnýta í rannsóknina
Hagar eru því ósamála að forsendur Samkeppniseftirlitsins fyrir því að hafna samrunanum standist í dag. Í tilkynningunni segir: „Samkeppniseftirlitið kemst að þeirri niðurstöðu að Hagar séu enn í markaðsráðandi stöðu á dagvörumarkaði og byggir þar að mestu á 10 ára gamalli ákvörðun sinni frá árinu 2008. Enginn þeirra þriggja meginþátta sem Samkeppniseftirlitið lagði til grundvallar þeirri ákvörðun á við í dag.“
Kjarninn sagði frá úrskurði Samkeppniseftirlitsins 18. júlí. Þar voru eftirtaldir punktar nefndir sem ástæður ógildingar samruna Haga við Lyfju:
Staða á mörkuðum sem Hagar og Lyfja starfa bæði á:
„Rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiddi í ljós að fyrirtækin eru nánir keppinautar í smásölu á hreinlætis- og snyrtivörum, markaði fyrir vítamín, bætiefni og steinefni og markaði fyrir mat- og drykkjarvörur í flokki heilsuvara.“
„Við samrunann hefði samkeppni milli fyrirtækjanna horfið og á sumum landsvæðum utan höfuðborgarsvæðisins hefði hið sameinaða fyrirtæki verið eini smásalinn á umræddum vörum“.
Markaðsráðandi staða Haga á dagvörumarkaði:
„Rannsókn Samkeppniseftirlitsins leiðir ennfremur í ljós að samruninn hefði styrkt markaðsráðandi stöðu Haga. Sú styrking hefði fyrst og fremst birst í auknum innkaupastyrk hins sameinaða félags, samþættingu verslana, staðsetningu verslana og möguleikum á auknu vöruframboði í verslunum Lyfju.“
Áhrif Costco:
„Það er niðurstaða þessarar rannsóknar að opnun og tilvist Costco á íslenskum markaði hafi takmörkuð áhrif á þá markaði sem Hagar og Lyfja starfa bæði á, þ.e. einkum á hreinlætis- og snyrtivörumarkaði.“
„Niðurstaða þessa máls verður því ekki reist á þeirri forsendu að Hagar séu ekki lengur í markaðsráðandi stöðu eða að sú breyting verði á næstunni. Í þessu sambandi er Samkeppniseftirlitið sammála Högum og öðrum markaðsaðilum sem hafa lýst því yfir að of snemmt sé að segja til um hvaða áhrif Costco muni hafa hér á landi til lengri tíma litið.“
Í tilkynningunni segir einnig að Hagar hafi lagt fram tillögur að skilyrðum til þess að koma í veg fyrir samkeppnisröskunum. Þessar tillögur hafi hins vegar ekki verið nægar að mati Samkeppnisyfirlitsins.
Í lok tilkynningarinnar segir Pál Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins:
„Almenningur á Íslandi á að njóta lægra verðs og betri þjónustu á mikilvægum neytendamörkuðum, á grundvelli virkrar samkeppni. Samrunareglum samkeppnislaga er m.a. ætlað að tryggja þetta. Rannsókn okkar sýnir að þessi samruni hefði verið skref í öfuga átt.“