Verð hlutabréfa í Icelandair hefur hækkað um 6,69% í Kauphöllinni í dag, í kjölfar þess að tveir lykilstjórnendur félagsins keyptu í því fyrir tæplega 18 milljónir króna.
Kjarninn fjallaði um það fyrr í dag að Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Icelandair Group, og Bogi Nils Bogason, framkvæmdastjóri fjármála fyrirtækisins höfðu keypt hlutabréf í því fyrir tæplega 18 milljónir króna, en Kauphöll Íslands birti tilkynningu Icelandair um viðskipti innherja um hádegisbil í dag.
Svo virðist sem margir hafi ákveðið að fylgja ákvörðun stjórnendanna og kaupa hlutabréf í fyrirtækinu, en við lokun markaða í dag hafði markaðsvirði fyrirtækisins hækkað um 6,69% frá morgni í 1.222 milljóna króna viðskiptum.
Markaðsvirði Icelandair hefur lækkað um helming frá því í apríl í fyrra, en hlutabréf þeirra hrundu um 24% á einum degi í febrúar eftir slæma afkomuviðvörun. Virði hlutabréfa þeirra hafa farið úr því að vera 38,9 krónur í apríl 2016 niður í 15,15 krónur í dag. Virði allra hlutabréfa félagsins stendur nú í um 74 milljarða króna.