Atvinnuleysi mældist 4,4% á öðrum ársfjórðungi í Bretlandi, en það hefur ekki verið lægra í 42 ár. Þó er staðan á vinnumarkaði ekki sem best þar í landi, samkvæmt nýrri frétt CNN.
Hagstofa Bretlands birti í dag vinnumarkaðstölur sínar af öðrum ársfjórðungi 2017. Samkvæmt þeim hefur atvinnuþátttaka 16 til 64 ára Breta aukist upp í 75,1%, en það er hæsta atvinnuþátttökuhlutfall þar í landi í 45 ár.
Sömuleiðis hefur atvinnuleysi minnkað og hefur ekki mælst lægra síðan árið 1975. Hlutfallið mældist í 4,4% á vormánuðum í ár, miðað við 4,9% fyrir sama tímabil í fyrra. Tölurnar voru ekki fullkomlega í takt við væntingar, en búist var við því að það yrði 0,1 prósentustigi hærra.
Samkvæmt frétt CNN á vinnumarkaðurinn í Bretlandi þó erfitt uppdráttar, lítið atvinnuleysi skilar sér ekki í raunvexti launa. Nafnvirði launa hækkuðu um 2,1% fyrir sama tímabil og verðbólgan var 2,6%, þannig að raunvirði launa lækkaði um 0,5% frá apríl til júní.
Samhliða lækkun raunlauna minnkaði einnig framleiðni í Bretlandi, annan ársfjórðunginn í röð og er nú orðin minni en í Frakklandi, Þýskalandi og öðrum þróuðum hagkerfum. Þetta sé áhyggjuefni að mati eins álitsgjafa CNN þar sem framleiðniaukning sé eina sjálfbæra leiðin í átt að hærri launum og meiri lífsgæðum.
Fyrirhuguð útganga Bretlands úr Evrópusambandinu gæti líka haft slæmar afleiðingar fyrir vinnumarkaðinn, en búast má við því að draga muni úr vinnuafli þar sem erfiðara verður fyrir erlenda verkamenn að vinna í landinu. Kjarninn hefur áður fjallað um fyrirhugaða flutninga erlendra fjármálafyrirtækja úr Lundúnum, en líklegt er að með þeim fari um 10-20 þúsund störf annað hvort til Dyflinnar eða Frankfurt.