Þrír vogunarsjóðir og bandaríski fjárfestingabankinn Goldman Sachs International, sem keyptu 29,18 prósent hlut í Arion banka í lokuðu útboði snemma á þessu ári, ætla ekki að nýta sér kauprétt á 21,9 prósent hlut sem þeir höfðu samið um, og þurftu að nýta fyrir 19. september næstkomandi. Frá þessu er greint í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins um efnahagsmál og viðskipti, í dag.
Þar segir að hvorki Goldman Sachs né vogunarsjóðirnir þrír, Taconic Capital, Och-Ziff Capital Management, Attestor Capital, ætli sér að nýta kaupréttinn.
Til stendur að fram fari hlutafjárútboð í október eða nóvember þar sem 58 prósent hlutur í Arion banka verður seldur. Í Markaðnum segir að hann hafi heimildir fyrir því að verulegur áhugi sé hjá erlendum sjóðum að taka þátt í því útboði. Fossar markaðir, sem verði söluráðgjafar Kaupþings í útboðinu, hafi þegar safnað fjárfestaloforðum fyrir um 90 til 100 milljarða króna. Í Markaðnum segir að um sé að ræða „sömu sjóði og hafa verið umsvifamiklir í fjárfestingum í skráðum félögum síðustu misseri – Eaton Vance, Wellington og Miton – og eins aðra erlenda sjóði sem hafa ekki áður fjárfest á Íslandi og eru meðal annars hluthafar í ýmsum evrópskum fjármálafyrirtækjum.“
Fjórir keyptu hluti í Arion banka af sjálfum sér
Í mars var tilkynnt að fjórir aðilar, vogunarsjóðirnir Taconic Capital, Och-Ziff Capital Management, Attestor Capital og fjárfestingabankinn Goldman Sachs hefðu keypt samtals 29,18 prósent hlut í Arion banka af Kaupþingi á 48,8 milljarða króna. Verðið sem greitt var fyrir er um 0,8 krónur á hverja krónu af bókfærðu eigin fé Arion banka.
Þegar samið var um stöðuleikaframlög setti íslenska ríkið inn ákvæði þess efnis að það gæti gengið inn í viðskipti með hluti í Arion banka ef gengið yrði lægra en 0,8 af bókfærðu eigin fé bankans. Í því samkomulagi var líka samið um að Kaupþing þurfi að selja hlut sinn í Arion banka fyrir árslok 2018. Ef það myndi ekki takast myndi ríkissjóður leysa bankann til sín.
Í viðskiptunum fólst því að eigendur ⅔ hluta Kaupþings voru að kaupa stóran hluta í Arion banka á eins lágu verði og mögulegt var fyrir þá án þess að virkja ákvæði sem gerði íslenska ríkinu kleift að ganga inn í kaupin.
Til viðbótar átti þessi hópur kauprétt á 21,9 prósent hlut í Arion banka. Hefðu þeir nýtt hann yrðu vogunarsjóðirnir þrír og Goldman Sachs beinir eigendur að meirihluta í Arion banka. Nú er hins vegar fullyrt að þeir ætli sér ekki að nýta réttinn.
Til að teljast virkur eigandi í fjármálafyrirtæki þarf að eiga yfir tíu prósent hlut. Tveir kaupendanna, Taconic og Attestor, halda sem stendur á 9,99 prósent hlut. Þeir hafa þó báðir óskað eftir því við Fjármálaeftirlitið að farið sé með þá sem virka aðila. Búist er við því að eftirlitið skili niðurstöðu sinni á allra næstu vikum.
Þessir fjórir aðilar keyptu hlutinn í Arion banka af Kaupþingi ehf. eiga líka samtals 66,31 prósent hlut í Kaupþingi. Langstærsti einstaki eigandi Kaupþings eru sjóðir í stýringu Taconic Capital með 38,64 prósent eignarhlut. Næst stærsti eigandinn er lúxemborgískt félag tengd Och-Ziff Capital Management Group með 14,21 prósent eignarhlut. Þriðji stærsti hópurinn eru sjóðir í stýringu hjá Attestor Capital, sem eiga 8,63 prósent hlut. Fjárfestingabankinn Goldman Sachs og sjóður í stýringu hans eru síðan skráðir fyrir 4,83 prósent hlut. Því er ljóst að sjóðirnir voru að selja sjálfum sér hluti í Arion banka. Og beinn og óbeinn hlutur þeirra í bankanum er samanlagt mun hærri en sá hlutur sem keyptur var.