Mikil samþjöppun er í ferðaþjónustu um þessar mundir, samkvæmt Eggerti Ólafssyni, lögfræðingi sem sérhæfir sig í samkeppnismálum. Samkvæmt honum er ekki búist við því að Samkeppniseftirlitið gagnrýni samruna Iceland Travel og Gray Line, jafnvel þótt sameiginleg markaðshlutdeild félaganna gæti verið mikil.
Eggert birti grein um málið á vef Samkeppnisráðgjafar, en í henni er greint frá fjölda samruna félaga innan ferðaþjónustunnar. Sú fyrsta hafi sennilega verið fyrir um einu ári síðan þegar fjárfestingarsjóðurinn Eldey keypti í Norðursiglingu á Húsavík. Seinna um árið hafi sjóðurinn Horn III svo keypti Hagvagna og Hópbíla, en Kjarninn fjallaði um kaupin fyrir stuttu.
Í sumar hafi svo borið meira á sameiningum fyrirtækja sem sérhæfa sig í sölu á upplifunarferðum og skoðunarferða, líkt og með samruna Extreme Iceland og Arctic Adventures í maí síðastliðnum. Í síðustu viku var tilkynnt um yfirtöku Iceland Travel á Gray Line og nú í þessari viku var sagt frá því að Eldey og Íslenskir fjallaleiðsögumenn væru að kaupa meirihluta í Arcanum ferðaþjónustu.
Vikið er að því í greininni hversu fjölbreyttir samrunarnir eru að gerð. Í fyrsta lagi séu það samsteypusamrunar milli atvinnugreina (Eldey og Norðursigling), í öðru lagi lóðréttir samrunar innan ferðaþjónustunnar (Iceland Travel og Gray Line) og í þriðja lagið láréttir samrunar (Extreme Iceland og Arctic Adventures).
Það sé sameiginlegt samsteypusamrunum og lóðréttum samrunum að almennt hafi þeir síður í för með sér samkeppnisleg vandkvæði heldur en láréttir. Þó geti hinir fyrrnefndu skapað hættu á upplýsingaleka, eða útilokun keppinauta frá markaði ef markaðshlutdeild beggja samrunaaðila sé há.
Ekki liggja fyrir upplýsingar um hver markaðshlutdeild Iceland Travel og Gray Line sé á viðkomandi mörkuðum. Þó telur Eggert ekki sennilegt að Samkeppniseftirlitið geri veigamiklar athugasemdir við samruna fyrirtækjanna, jafnvel þótt markaðshlutdeild þeirra kunni að vera stór.