Eignarhlutur þriggja íslenskra lífeyrissjóða í United Silicon er innan fjárfestingarheimilda þeirra, samkvæmt svari frá Fjármálaeftirlitinu.
Kjarninn lagði fram fyrirspurn til Fjármálaeftirlitsins um hvort fjárfestingar lífeyrissjóðanna Festu, Frjálsa og EFÍA, fyrir 2.166 milljónir króna í United Silicon, hafi samrýmst fjárfestingarreglum þeirra, þar sem fyrirtækið er óskráð.
Áður hefur verið greint frá þessum fjárfestingum, en Frjálsi fjárfesti fyrir 1.178 milljónir króna í fyrirtækinu. United Silicon er nú komið í greiðslustöðvun og vinnur að gerð nauðasamninga við kröfuhafa sína.
Í svari Fjármálaeftirlitsins kom fram að lífeyrissjóðirnir hafi heimild til að binda allt að 10% heildareigna sinna í hlutabréfum sama útgefanda. Heimildin er óháð því hvort um skráð eða óskráð fyrirtæki sé að ræða, en lífeyrissjóði er heimilt að eiga allt að 25% af eignum sínum í óskráðum fjármálagerningum. Samkvæmt samantekt úr ársreikningum lífeyrissjóðanna var hlutfall eigna þeirra í óskráðum fyrirtækjum 3,9% hjá Frjálsa, 4,3% hjá EFÍA og 5,3% hjá Festu.
Ekki er ljóst hvernig eignarhaldi United Silicon er háttað, en Kristleifur Andrésson, talsmaður fyrirtækisins, vildi ekki gefa upp neinar upplýsingar um eigendur þegar Kjarninn bað um þær á miðvikudaginn.