Hjörleifur Guttormsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra Alþýðubandalagsins, segir að sjómannamyndarmálið sýni mikla bresti hjá stjórnendum Reykjavíkur og í stjórnkerfi höfuðborgarinnar. Almenningi og þeim sem næstir eru vettvangi blasi við, lög og samþykktir hafi verið brotið í þágu skemmtanahalds einkaaðila og farið í feluleik um málsatvik til að komast hjá því að horfast í augu við eigin gjörning. Hann segir fréttastofu RÚV hafa látið misnota sig með því að taka við tölvupóstum sem hann skrifaði borgarstarfsmönnum, setja saman hrærigraut út þeim feng og birta á fréttavef sínum. Þessi sending hafi verið frá fólki í borgarkerfinu sem hafi greinilega verið mikið í mun að „beina athygli frá eigin samþykktum og gjörðum og benda þess í stað á sökudólg úti í bæ.“ Þetta kemur fram í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.
Málað var yfir mynd af sjómanni á gafli Sjávarútvegshússins í júlí síðastliðnum. Myndin var máluð á gaflinn í tengslum við Iceland Airwaves hátiðina 2015 og var hluti af alls tólf verkum sem máluð voru á hús af því tilefni. Engin virðist geta sagt hver hafi tekið ákvörðun um að málað yrði yfir verkið en RÚV birti í síðustu viku tölvupóstsamskipti Hjörleifs, sem býr í Skuggahverfinu í námunda við Sjávarútvegshúsið, við borgaryfirvöld. Í tölvupóstunum kom fram að Hjörleifur hefði óskað eftir því að verkið yrði fjarlægt og byggingafulltrúi Reykjavíkurborgar sagði að það væri „mikið fyrir brjóstið á fyrrverandi ráðherra sem býr í nágrenninu.“
Hjörleifur segir í grein sinni í dag að myndin hafi sett sterkan svip á umhverfið við hlið Hörpu. Þegar borgarstjórn hefði samþykkt ósk Iceland Airwaves um að mála myndina á gaflinn hefði hún ekki sett neinn skilyrði um hversu lengi verkið mætti standa né gert fyrirvara um grenndarkynningu.
Hann segir síðan að málið kunni að virðast léttvægt og heldur ómerkilegt, en þegar betur sé að gáð sýni það mikla bresti hjá stjórnendum og stjórnkerfi Reykjavíkurborgar. „Lítilsvirðingin gagnvart almenningi og þeim sem næstir eru vettvangi blasir hér við. Brotin eru lög og samþykktir í þágu skemmtanahalds einkaaðila, Farið er í feluleik um málsatvik til að komast hjá því að horfast í augu við eigin gjörning. Ekki ég, ekki ég...eru svörin sem fjölmiðlar fá við eftirgrennslan og í þokkabót er sáldrað út tölvupóstum af samskiptum íbúa við stjórnkerfi borgarinnar. Hver er staða stjórnenda Reykjavíkur gagnvart þeim sem ástunda veggjakrot á eignir borgarbúa og staðhæfa margir hverjir að þar sé um listaverk að ræða? Reykjavík er að verða útbíuð af þess háttar skrauti, Umhverfi Reykjavíkur verðskuldar önnur vinnubrögð en þau sem endurspeglast í þessu máli. - Höfuðstaðurinn þarf á jákvæðri samvinnu við íbúana að halda og trúnaði í samskiptum.“
Hjörleifur var Alþingismaður fyrir Alþýðubandalagið frá 1978 til 1999. Hann var iðnaðarráðherra frá 1978 til 1979 og svo aftur 1980 til 1983. Hjörleifur var einn stofnenda Vinstri grænna en sagði sig úr flokknum í janúar 2013.