Lífeyrissjóðurinn Festa hefur alls fjárfest 875 milljónum króna í verksmiðju United Silicon í Helguvík. Þar af eru 251 milljónir króna hlutafé en hitt er skuldabréfalán. Framkvæmd hefur verið varúðarniðurfærsla vegna United Silicon í bókum sjóðsins en ekki liggur enn ljóst fyrir hvert endanlegt fjárhagstjón hans vegna fjárfestinganna verður. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem birt er á heimasíðu Festu.
Í síðustu viku var greint frá því að þrír íslenskir lífeyrissjóðir hefðu fjárfest fyrir samtals 2,2 milljarða króna í verkefninu. Sjóðirnir sem um ræðir eru Festa lífeyrissjóður, Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Eftirlaunasjóður félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA). Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur fjárfest mest, eða fyrir 1.178 milljónir króna. Allir þrír sjóðirnir tóku þátt í hlutafjáraukningu í apríl og lögðu þá 460 milljónir króna til viðbótar í United Silicon.
Rúmum fjórum mánuðum síðar var United Silicon komið í greiðslustöðvun og vinnur nú að gerð nauðasamninga við kröfuhafa sína. Í þeim samningum eru umræddir lífeyrissjóðir í tvíþættri stöðu, þar sem fjárfesting þeirra í United Silicon er bæði í formi hlutabréfa- og skuldabréfaeignar.
Arion banki tók einnig þátt í aukningunni í apríl og á nú 16 prósent hlut í United Silicon. Bankinn er auk þess helsti lánveitandi félagsins. Arion rekur auk þess Frjálsa lífeyrissjóðinn og hann er til húsa í höfuðstöðvum bankans í Borgartúni. Bankinn skipar þrjá af sjö stjórnarmönnum Frjálsa lífeyrissjóðsins samkvæmt samþykktum hans.
Greining Arion banka til grundvallar fjárfestingunni
EFÍA er líka rekinn af Arion banka. Í yfirlýsingu sem sjóðurinn birti á heimasíðu sinni fyrir helgi kom fram að heildarfjárfesting hans í verkefninu væri 112,9 milljónir króna. Líkt og með aðrar sérhæfðar fjárfestingar hafi það verið stjórn sjóðsins sem tók ákvörðun um hana „að undangenginni ítarlegri greiningu sérfræðinga eignastýringu Arion Banka.“ Framkvæmdastjóri sjóðsins er starfsmaður Arion banka.
Komið á óvart hversu illa hafi gengið
Í tilkynningu Festu segir að sjóðurinn hafi ákveðið að taka þátt í fjármögnun United Silicon síðla árs 2014. Þá var það gert í formi skuldabréfs. „Á þeim tíma var verkefnið langt komið, öll tilhlýðileg leyfi lágu fyrir (umhverfismat, starfsleyfi, o.s.frv.) ásamt orkusamningum, samningum um byggingu verksmiðju og sölusamningum vegna afurða félagsins. Arðsemi fjárfestingarinnar var metin góð að teknu tilliti til áhættu og það í gjaldeyrisskapandi starfsemi á tímum gjaldeyrishafta. Við ákvarðanatöku lágu jafnframt fyrir verkfræðilegar og lögfræðilegar kostgæfnisathuganir óháðra ráðgjafafyrirtækja. Auk þess var óskað álits þriðja aðila (verkfræðistofu) á verkfræðilegri kostgæfnisathugun. Síðar kom í ljós að byggingarkostnaður fór fram úr áætlun og síendurtekin ófyrirséð vandamál hafa komið upp eftir að verksmiðjan var gangsett. Félagið fór þá í hlutafjáraukningar og tók sjóðurinn þátt í þeim til að koma verksmiðjunni í starfhæft ástand. Við ákvörðunina studdist stjórn sjóðsins við nýja úttekt verkfræðistofu á kostnaðaráætlun félagsins. Þátttaka í hlutafjáraukningu árið 2016 nam 215 milljónum króna, þátttaka í hlutafjáraukningu árið 2017 nam 36 milljónum króna. Við síðustu hlutafjáraukningu settu lífeyrissjóðir ströng skilyrði til að tryggja sem best hagsmuni sína. T.d. að lífeyrissjóðir fengju forgang á arð og tvöfaldan atkvæðisrétt. Lagt var upp með að hlutaféð yrði m.a. nýtt til að bæta mengunarvarnir og öryggi starfsfólks..Sjóðurinn brýndi einnig fyrir stjórn United Silicon að eitt af forgangsverkefnum hennar ætti að vera að reka verksmiðjuna í sem bestri sátt við nærumhverfi sitt.“
Það hafi hins vegar komið á óvart hversu illa hafi gengið að koma starfseminni í eðlilegt horf. Ástæður í rekstri megi rekja til síendurtekinna bilana í búnaði sem valdið hefðu félaginu miklu tjóni. Þá hafi nýfallin gerðardómur í deilu félagsins við ÍAV, þar sem United Silicon var gert að greiða um milljarð króna, aukið enn á óvissu í rekstri félagsins.„Festa lífeyrissjóður harmar þá stöðu sem upp er komin hjá félaginu en vonast eftir að í nauðasamningsferlinu takist félaginu að ljúka fjárhagslegri endurskipulagningu og halda áfram rekstri.“