Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, ætlar að gefa kost á sér sem formaður flokksins á landsfundi Samfylkingarinnar sem haldinn verður í haust. Logi tilkynnti flokksfélögum þetta í tölvupósti í gær.
Heiða Björg Hilmisdóttir, varaformaður flokksins og borgarfulltrúi í Reykjavík, staðfesti við Kjarnann í dag að hún ætli einnig að gefa kost á sér sem varaformaður áfram.
Landsfundur Samfylkingarinnar verður haldinn dagana 27. og 28. október næstkomandi og þar verður kosið í öll embætti á vegum flokksins. Á landsfundinum verður einnig skerpt á stefnu flokksins í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga næsta vor.
„Ég hef trú á því að Samfylkingin nái vopnum sínum aftur og styrkist nægilega til að verða aftur það hreyfiafl sem er nauðsynlegt í stjórnmálum dagsins,“ skrifaði Logi. Samfylkingin hlaut afhroð í síðustu Alþingiskosningum í október 2016 og fékk aðeins þrjá menn kjörna og 5,7 prósent atkvæða á landsvísu.
Oddný Harðardóttir sagði af sér formennsku í kjölfar kosninganna og Logi tók við eftir að hafa verið kjörinn varaformaður á aðalfundi flokksins 2016. Logi er einn þriggja þingmanna Samfylkingarinnar í dag, ásamt Oddnýju og Guðjóni Brjánssyni. Flokkurinn hefur sem stendur enga þingmenn úr kjördæmum á höfuðborgarsvæðinu.
„Þegar kötturinn slasar sig, dregur hann sig tímabundið í hlé, sleikir sár sín og kemst von bráðar á veiðar aftur. Þá sýnir hann bæði tennur og klær,“ skrifar Logi í tölvupóstinum.
Hann bendir á að það muni taka tíma að endurnýja traust kjósenda til flokksins. „[...]endurnýjað traust byggist á því að við verðum staðfsöt í öllum okkar málflutningi um leið og við gætum að því að hafa þolinmæði og æðruleysi í farteskinu.“
Hugmyndir um að breyta um nafn
Hrun Samfylkingarinnar hefur verið mikið síðan fylgi við flokkinn náði hámarki í Alþingiskosningunum 2009. Þá leiddi Jóhanna Sigurðardóttir kosningasigur þar sem Samfylkingin var stærsta stjórnmálaaflið á þingi, með 20 þingmenn og 29,8 prósent atkvæða. Jóhanna leiddi í kjölfarið ríkisstjórn með Vinstri grænum.
Í kosningunum 2013 var fylgi við flokkinn hins vegar mun minna undir forystu Árna Páls Árnasonar, og flokkurinn fékk 12,9 prósent atkvæða og níu menn kjörna. Síðasta kjörtímabil varð litað innanflokkserjum, þar sem Árni Páll þurfti að berjast fyrir formannssæti sínu eftir að Sigríður Ingibjörg Ingadóttir gerði tilraun til að verða sjálf formaður. Árni Páll lét af formennsku í aðdraganda kosninganna 2016.
Undanfarna daga hafa fjölmiðlar fjallað um tillögur áhrifamanna innan flokksins að Samfylkingin skipti um nafn. Það verði liður í uppbyggingarstarfi flokksins eftir afhroð síðustu Alþingiskosninga.
Kjarninn greindi frá því á fimmtudag að Eva H. Baldursdóttir, varaborgarfulltrúi Samfylkingarinnar og lögmaður hjá Fjármálaráðuneytinu, hafi óskað eftir nýjum tillögum að nafi á Facebook. Ágúst Ólafur Ólafsson, fyrrverandi varaformaður og þingmaður Samfylkingarinnar, viðraði þessar hugmyndir í fjölmiðlum í aðdraganda kosninga í fyrra og lagði til nafnið Jafnaðarmannaflokkur Íslands.
Því nafni ættu stuðningsmenn Samfylkingarinnar að vera orðnir vanir, enda er opinbert heiti flokksins „Samfylkingin – jafnaðarmannaflokkur Íslands“.
Samfylkingin var stofnuð árið 2000 úr kosningabandalagi vinstri flokkanna í Alþingiskosningunum 1999. Talað var um sameiningu vinstri vængs stjórnmálanna þegar fjórum flokkum – Alþýðubandalaginu, Alþýðuflokknum, Þjóðvaka og Kvennalista – var steypt saman í einn. Sameiningin tókst hins vegar ekki alveg því Vinstri hreyfingin - grænt framboð var stofnuð á sama tíma vegna hugmyndaágreinings milli fylkinga í Alþýðubandalaginu.
Fylgi Samfylkingarinnar hefur aukist lítillega eftir kosningar 2016, ef marka má skoðanakannanir undanfarna mánuði. Í síðasta Þjóðarpúlsi Gallup mældist hann í 9,2% og í síðustu könnun MMR mældist hann í 10,6%.