Hlýnun sjávar og minna súrefni í hafinu mun leiða til þess að hundruð fiskitegunda munu minnka meira en áður en var talið. Á meðal þeirra fiskitegunda sem munu minnka eru þorskur, ýsa og lax.
Niðurstöður rannsóknarinnar birtust í vísindatímaritinu Global Change Biology á mánudag. Frá þessu er greint á vef National Geographic.
Stærð fiska mun minnka um að því sem nemur 20 til 30 prósent miðað við niðurstöður rannsóknar sem unnin var við háskólann í Bresku kólumbíu í Kanada.
Fiskarnir minnka svo mikið vegna þess að blóðið í þeim er kalt, er haft eftir William Cheung, einn rannsakendanna. Kalt blóðið veldur því að fiskarnir geta ekki stýrt líkamshita sínum. Um leið og hafið sem þeir synda í hlýnar verða efnaskipti fiskanna hraðari og þá þarf dýrið meira súrefni. „Það kemur að því að tálkn fiskana geta ekki unnið nógu mikið súrefni fyrir stærri líkama svo fiskarnir hætta að vaxa,“ segir Cheung.
Þessar breytingar munu hafa gríðarleg áhrif á stærri vistkerfi hafsins. „Niðurstöður tilrauna á rannsóknarstofu sýna að það verði alltaf stærri dýr sem muni finna fyrir þessu fyrst,“ segir Daniel Pauly, aðalhöfundur rannsóknarinnar. „Minni tegundir munu þess vegna fá forskot, hvað þetta varðar.“
Pauly hefur áður rannsakað fiska og er kannski þekktastur fyrir rannsóknir sínar á ofveiði. Hann hefur rannsakað tálknavöxt og stærð fiska undanfarna áratugi. Þeir Cheung greindu frá niðurstöðum frumrannsóknar sinnar á tengslum tálknastæðar og fiskistærðar árið 2013.
Fyrir þá rannsókn hlutu þeir gagnrýni fyrir að styðjast við einfaldanir. Í rannsókninni sem birtist á mánudag styðjast Pauly og Cheung við þróaðri líkön og færa rök fyrir kenningu sinni á ný. Niðurstöðurnar eru í grunninn þær sömu, nema að fyrri rannsókn virðist hafa vanmetið áhrif þessa vandamáls á stærð fiska.