Áform eru uppi um að stöðva rektur kísilmálmverksmiðju United Silicon í Helguvík 10. september næstkomandi til að gera umbætur á búnaði hennar. Þetta kemur fram í bréfi sem Umhverfisstofnun sendi fyrirtækinu í gær og greint er frá í Fréttablaðinu í dag.
Þar er haft eftir Sigrúnu Ágústsdóttur, sviðstjóra hjá Umhverfisstofnun, að ekki verði gefin heimild til að ræsa verksmiðjuna að nýju ef úrbætur verða ekki gerðar.
Blaðið ræðir einnig við Björt Ólafsdóttur, umhverfis- og auðlindarráðherra. Hún segir að rekstur United Silicon hafi verið ein sorgarsaga alveg frá byrjun og að henni þyki undarlegt að þeir sem fari með fé almennings fjárfesti í fyrirtæki sem almenningur í nágrenninu sé á móti. Þar vísar Björt í að nágrannar kísilmálmverksmiðjunnar hafa ítrekað kvartað yfir lyktamengun frá henni og þess að þrír íslenskir lífeyrissjóðir hafa fjárfest fyrir samtals 2,2 milljarða króna í United Silicon, annað hvort í formi hlutafjár eða lána.
Skuldar Arion banka átta milljarða
United Silicon rekur kísilmálmverksmiðju í Helguvík. Félagið óskaði eftir greiðslustöðvun 14. ágúst síðastliðinn. Ástæðan eru erfiðleikar í rekstri kísilmálmverksmiðjunni sem hóf framleiðslu í nóvember 2016, og rekja má til síendurtekinna bilana í búnaði sem hafa valdið félaginu miklu tjóni. Nýfallinn gerðardómur í deilu félagsins við ÍAV hf. eykur enn á óvissu félagsins. Samkvæmt honum þarf United Silicon að greiða ÍAV um einn milljarð króna.
Bankinn er auk þess með átta milljarða króna útistandandi við félagið, þar með talið lánsloforð og ábyrgðir. Niðurfærsluþörf á þeim lánum er enn óljós og háð fjárhagslegri endurskipulagningu United Silicon. Þetta kom fram í árshlutareikningi Arion banka sem birtur var í gær.
Þrír sjóðir með 2,2 milljarða undir
Í síðustu viku var greint frá því að þrír íslenskir lífeyrissjóðir hefðu fjárfest fyrir samtals 2,2 milljarða króna í verkefninu. Sjóðirnir sem um ræðir eru Festa lífeyrissjóður, Frjálsi lífeyrissjóðurinn og Eftirlaunasjóður félags íslenskra atvinnuflugmanna (EFÍA). Frjálsi lífeyrissjóðurinn hefur fjárfest mest, eða fyrir 1.178 milljónir króna. Festa lagði félaginu til 875 milljónir króna í hlutafé og skuldabréfalán. Allir þrír sjóðirnir tóku þátt í hlutafjáraukningu í apríl og lögðu þá 460 milljónir króna til viðbótar í United Silicon.
Arion banki rekur auk þess Frjálsa lífeyrissjóðinn og hann er til húsa í höfuðstöðvum bankans í Borgartúni. Bankinn skipar þrjá af sjö stjórnarmönnum Frjálsa lífeyrissjóðsins samkvæmt samþykktum hans.
EFÍA er líka rekinn af Arion banka.