Félagið Útvörður ehf., sem er í eigu Þorsteins Guðnasonar, hefur stefnt Pressunni ehf., sem rekur meðal annars fjölmiðlanna DV, DV.is, Eyjuna, Bleikt.is og Pressuna. Málið verður tekið fyrir í héraðsdómi Reykjavíkur 6. september næstkomandi. Þorsteinn vildi ekki tjá sig um málið þegar Kjarninn leitaði eftir upplýsingum um það en í ársreikningi Útvarðar sést að Pressan skuldaði Útverði 91 milljón króna í lok árs 2015.
Krafan er eina verðmæta eign Útvarðar. Hún á rætur sínar að rekja til þess að félagið veitti Pressunni seljendalán til að kaupa DV og DV.is á árinu 2014. Miðað við umfang kröfunnar hefur lítið eða ekkert verið greitt af henni síðan að til hennar var stofnað.
Í Stundinni sem kom út í dag kemur fram að Pressan skuldi auk þess Tollstjóra um 300 milljónir króna vegna vangoldinna opinberra gjalda. Gjaldþrotabeiðni hafi verið send inn í vor á hendur DV ehf., einu þeirra félaga sem tilheyra Pressusamstæðunni, og að sú beiðni verði brátt tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Veittu seljendalán
Haustið 2014 áttu sér stað mikil átök um yfirráð yfir DV. Feðgarnir Reynir Traustason og Jón Trausti Reynisson, ásamt samstarfsmönnum sínum, höfðu þá átt og stýrt DV um nokkurt skeið en fengið fjárhagslega fyrirgreiðslu víða til að standa undir þeim rekstri, meðal annars hjá Gísla Guðmundssyni, fyrrum eiganda B&L. Þeim kröfum var síðan breytt í hlutafé sem dugði til að taka yfir DV. Í átökunum kom maður að nafni Þorsteinn Guðnason fram fyrir hönd þeirra krafna.
DV var skömmu síðar selt til hóps undir forystu Björns Inga Hrafnssonar. Kaupin voru gerð í nafni félags sem heitir Pressan ehf. Kaupverðið var ekki gert opinbert en Björn Ingi, sem er aðaleigandi Pressunnar og helsti stjórnandi fjölmiðlasamsteypu félagsins, greindi frá því að stór hluti þess hefði verið fjármagnað með láni frá seljendum hlutarins.
Kröfur Útvarðar á hendur Pressunni eru tilkomnar vegna þess seljendaláns. Í ársreikningi félagsins segir að undirliggjandi hlutabréf séu til tryggingar endurgreiðslu. Það þýðir að Útvörður á veð í hlutabréfum Pressunnar.
Kjarninn greindi frá því í maí að skuldir Pressusamstæðunnar séu yfir 700 milljónir króna og að mat fjárfesta sem ætluðu að koma að henni, en hættu svo við, væri að það sé upphæðin sem þyrfti að leggja henni til svo að hún yrði rekstrarhæf.
Tollstjóri farið fram á gjaldþrotaskipti
Í Stundinni sem kom út í dag kemur fram að skuldir Pressusamstæðunnar við Tollstjóra séu um 300 milljónir króna vegna vangoldinna opinberra gjalda.
Í blaðinu kemur fram að þar fyrir utan séu skuldir við lífeyrissjóði sem nemi um hundrað milljónum króna. Ekki sé verið að þjónusta þessar skuldbindingar.
Stundin greinir einnig frá því að Tollstjóri hafi sent inn gjaldþrotabeiðni á hendur DV ehf. í vor. Sú beiðni hafi ekki verið afturkölluð og verður brátt tekin fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur.