Hluthafar Whole Foods hafa nú formlega samþykkt kauptilboð tækni- og smásölurisans Amazon en verðmiðinn var 13,7 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um 1.500 milljörðum króna. Formleg sameining hefur ekki ennþá gengið í gegn, en það styttist í að það gerist.
Amazon hyggst lækka verð á fjölda vörutegunda í Whole Foods og tengja saman Amazon Prime vildarkjarakerfi á vef fyrirtækisins við verslanakeðjuna. Þannig munu áskrifendur Amazon Prime fá afsláttarkjör í Whole Foods.
Talið er að Amazon Prime meðlimir séu næstum 80 milljónir á heimsvísu, en Amazon gefur ekki upp nákvæma tölu áskrifenda sinna í uppgjörstilkynningum. Greinendur hafa þó greint uppgjör félagsins með fyrrgreindum hætti.
Fastlega er búist við því að Amazon muni kynna margvíslegar breytingar á starfsemi sinni, á næstu misserum, en fyrirtækið vinnur nú að miklum vaxtaráformum í Evrópu og miðausturlöndum, þar sem fyrirtækið ætlar sér að byggja upp sambærilega smásölustarfsemi og hefur náð rækilegri fótfestu í Bandaríkjunum.
Gengi bréfa helstu samkeppnisaðila Amazon féll, samkvæmt umfjöllun BBC, eftir að fréttirnar bárust út um að Amazon hefði hug á því að lækka vöruverð í Whole Foods, og efla verslunina með harðari samkeppni um verð við önnur fyrirtæki. Vöruverð í Whole Foods hefur verið á bilinu 15 til 20 prósent hærra en hjá mörgum samkeppnisaðilum, en að á móti hefur fyrirtækið lagt mikið upp úr gæðavöru og góðri verslunarupplifun.
Í heild eru verslanir Whole Foods 470 talsins. Jeff Bezos, forstjóri Amazon, hefur látið hafa eftir sér að engar kúvendingar verði gerðar á starfsemi Whole Foods, enda fyrirtækið þekkt fyrir afbragðs þjónustu og góðar vörur. Hins vegar séu mikil tækifæri í því fólgin að efla netverslun, og tengja vörumerkið við þjónustu Amazon.
Markaðsvirði Amazon er í dag 474 milljarðar Bandaríkjadala, eða sem nemur um tæplega 50 þúsund milljörðum króna. Virði fyrirtækisins er því um fimmtíufalt meira en virði íslenska hlutabréfamarkaðarins í heild sinni. Bezos, sem er stofnandi fyrirtækisins, á sjálfur rúmlega 17 prósent hlut í fyrirtækinu.