Sænska tónlistarstreymisfyrirtækið Spotify hefur endursamið um dreifingarrétt á tónlist við Warner Music Group og verður fyrirtækið nú sett á hlutabréfamarkað.
Áður hafði Spotify gert samninga við Sony Music og Universial Music Group. Því er Spotify áfram með samninga við þrjú stærstu útgáfufyrirtæki tónlistar í heiminum.
Warner Music tilkynnti um samninginn á samfélagsmiðlum fyrirtækisins í dag. Í tilkynningunni segir Ole Obermann, yfirmaður stafrænnar deildar Warner Music Group, að þetta sé tímamótasamningur. „Með Spotify höfum við fundið nýstárlegar leiðir til þess að auka virði tónlistar á ný, skapa auknar tekjur fyrir listamenn og skemmta áhangendum hljómlistarmanna um allan heim.“
Stefan Bloom, efnisstjóri Spotify, segir að samstarfið muni stuðla að auknum vexti hins nýja tónlistarhagkerfis. „Þar geta margar milljónir tónlistarmanna tengst áhangendum sínum með engum fyrirvara og öfugt.“
Í samningum Spotify við stóru útgáfufyrirtækin er tónlistarmönnum gert kleift að gefa út tónlist sína á vefnum til áskrifenda hjá Spotify. Þeir sem hlusta á Spotify án þess að greiða fyrir þjónustuna munu þurfa að bíða eftir nýjustu útgáfunum áður en þær verða gerðar frjálsar.
Stefnt er að því að Spotify verði sett á hlutabréfamarkað í vetur. Fyrirtækið hefur sagst miða við lok árs 2017 eða byrjun árs 2018.