Kínverskir fjárfestar kanna kaup á jörðinni Neðri-Dal í Biskupstungum en ásett verð á henni er 1,2 milljarðar króna. Umrædd jörð er 1.200 hektarar að stærð og hún er næsta jörð við Geysissvæðið í Haukadal, einn fjölsóttasta ferðamannastað landsins. Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.
Þar er rætt við Böðvar Sigurbjörnsson, fasteignasala hjá Stakfelli, sem hefur Neðri-Dal til sölu. Hann segir kínversku fjárfestana horfa til bæði staðsetningar jarðarinnar og þess að á henni sé að finna heitt vatn. Það hafa þeir áhuga á að nota til að byggja upp ferðamannatengdan iðnað. Auk heits vatns er að finna á jörðinni kaldavatnslind, á með bæði laxi og silungi og Bjarnafell.
Átta bræður eiga jörðina. Þeir ætla allir að halda eftir skikum á henni fyrir sumarbústaði.
Nubo ætlaði líka að kaupa jörð á rúman milljarð
Þetta verða ekki fyrstu kínversku fjárfestarnir sem hafa ætlað sér að kaupa stóra jörð hérlendis til að byggja upp ferðamannatengdan iðnað. Kínverjinn Huang Nubo áformaði að kaupa Grímsstaði á fjöllum fyrir rúman milljarð króna fyrir nokkrum árum síðan. Hann ætlaði að byggja þar upp ferðaþjónustu en ekkert varð úr því.
Miklar pólitískar deilur urðu um áform Nubo og skók málið ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, þar sem Ögmundur Jónasson, fyrrverandi þingmaður og ráðherra Vinstri grænna, var kaupunum mjög mótfallin ásamt mörgum fleirum, þvert á flokka.
Þess í stað keypti breski milljarðamæringurinn Jim Ratcliffe, sem er númer 230 á lista Forbes yfir ríkasta fólk í heiminum, stóran eignarhlut í Grímsstöðum á fjöllum undir lok síðasta árs. Fram kom í tilkynningu frá honum að hann keypti jörðina til að vernda laxveiðiár á Norðausturlandi. Eignir Ratcliffe eru metnað á 6,8 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur tæplega 800 milljörðum króna. Eignir hans eru að miklu leyti bundnar í meirihlutaeign í efnaframleiðslustórveldinu Ineos Group.