Her Norður-Kóreu skaut í kvöld flugskeytum á loft sem flugu yfir Japan. Viðvörunarkerfi fór í gang og voru íbúar beðnir um að bregðast tafarlaust við og fylgja áætlunum eins og um raunverulega flugskeytaárás væri að ræða.
Skeytin lentu ekki í Japan, heldur á hafi úti, nánar tiltekið í norðanverðu Kyrrahafi. Flugskeytin fór um 2.700 kílómetra leið og flugu yfir landsvæði sem tilheyrir eynni Hokkaido, að sögn BBC. Nú þegar hafa stjórnvöld í Japan fordæmt flugskeytaskotin og varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna hefur staðfest að þau hafi átt sér stað.
Mikil spenna er nú á Kóreuskaga og hafa stjórnvöld í Suður-Kóreu og Japan þegar sent frá sér yfirlýsingar, þar sem skot Norður-Kóreu eru fordæmd og þess krafist að alþjóðasamfélagið grípi tafarlaust inn í.
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt, að Norður-Kórea muni fá að finna fyrir því ef her landsins hættir ekki flugskeytaárásum sínum. Kim Jung Un, hinn óútreiknanlegi leiðtogi Norður-Kóreu, hefur þó ekki látið af hótunum sínum í garð Bandaríkjanna, og ef eitthvað er, þá hefur hann frekar bætt í yfirlýsingarnar að undanförnu.
Hann hefur margítrekað hótað Bandaríkjunum, Suður-Kóreu og Japan flugskeytaárásum, og segir að Norður-Kórea muni verjast öllum hernaðartilburðum „andstæðinga“ af hörku.
Boris Johnson, utanríkisráðherra Bretlands, hefur nú þegar tjáð sig um flugskeytaskot Norður-Kóreu og segir þau „brjálæðisleg“ og með öllu ólíðandi.
Ekki liggur fyrir hvernig Sameinuðu þjóðirnar hyggjast bregðast við árásunum, en öryggisráð Suður-Kóreu hefur þegar verið kallað saman, að sögn BBC.
Uppfært 05:49: Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann krefst þess að öryggisráð Sameinuðu þjóðann fundi tafarlaust vegna flugskeytaskots Norður-Kóreu. Hann segir atburðinn vera alvarlega ógn við heimsfrið.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur verið kallað saman á fund, síðar í dag.