Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Viðreisnar, segir íslensku krónuna „leggja fjárhag heimila og fyrirtækja í rúst á víxl“. Þetta skrifar hann á Facebook-síðu sína og vísar í skoðanagrein Jónu Sólveigar Elínardóttur, þingmann Viðreisnar, um gjaldmiðlamálið.
„Jóna Sólveig Elínardóttir bendir á bestu leiðina til þess að losna við verðtryggingu og háa vexti. Með því að festa krónuna við annan gjaldmiðil,“ skrifar Benedikt á Facebook.
„Við þurfum að muna að krónuvinir eru um leið hávaxtavinir. Gjaldmiðill sem leggur fjárhag heimila og fyrirtækja í rúst á víxl er ekki góður gjaldmiðill.“
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Benedikt talar opinskátt um skoðun sína á íslensku krónunni. Hann skrifaði grein í síðasta mánuði um að krónan væri uppspretta óstöðugleika í hagkerfinu sem olli fjaðrafoki.
Vegna þessarar greinar sá Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, sig knúinn til þess að koma í sjónvarpsviðtal og árétta að ekki standi til að skipta um gjaldmiðil. Skoðun Benedikts og flokks hans á krónunni sé hans eigin skoðun og flokks hans, en ekki ríkisstjórnarinnar.
Vilja gera verðtrygginguna óþarfa
Í grein Jónu Sólveigar, sem birtist á Vísi í gær, er fjallað um tillögur Viðreisnar um hvernig losna megi undan verðtryggingunni. Tillögurnar ganga í grófum dráttum út á að festa krónuna við evru, eins og hefur verið gert til dæmis í Danmörku.
„Með því að festa krónuna við evru, t.d. með myntráði eins og við í Viðreisn tölum fyrir, náum við fram stöðugleikanum sem þarf til að lækka vexti og losna undan verðtryggingunni. Verðtryggingin yrði einfaldlega óþörf,“ skrifar Jóna Sólveig.
Þessi afstaða gengur í berhögg við stefnu Sjálfstæðisflokksins, sem fer með forystu í ríkisstjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð. Þegar hefur verið skipuð verkefnastjórn sem á að meta hvaða möguleikar eru fyrir hendi þegar kemur að endurskoðun peningastefnunnar. Verkefnastjórnin er nú að störfum en í henni sitja Ásgeir Jónsson, Illugi Gunnarsson og Ásdís Kristjánsdóttir.