Rex Tillerson, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur lagt til við bandaríska þingið að ráðgjafastöður í utanríkisráðuneytinu um loftslagsmál og málefni Sýrlands verið lagðar niður.
Samtals eru það 36 stöður í utanríkisþjónustunni sem sérhæfðu sig meðal annars í málefnum loftslags, múslima og Sýrlands sem stofnað var til með lögum og ráðherrann vill að lagðar verði af.
Frá þessu er greint á vef bandaríska tímaritsins Foreign Policy.
Tillerson óskar eftir lagabreytingum í bréfi sem hann sendi Bob Corker, formanni utanríkismálanefndar Öldungadeildar bandaríska þingsins. Í bréfinu lýsir ráðherrann áhyggjum sínum af því að nærri 70 sérhæfðar stöður hafi verið lagðar niður á síðustu áratugum; Stöður sem snertu málefni friðarumleitana í Írlandi og stjórnmálatengsl við Búrma.
Tillögur Tillerson þykja marka nokkuð miklar áherslubreytingar á utanríkisstefnu Bandaríkjanna. „Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að breytingartillögurnar muni vera bandarískum öryggishagsmunum til bóta og hjálpa til við að vega á móti áhrifum óvinum og samkeppnisaðilum Bandaríkjanna,“ skrifar Tillerson í erindi sínu til Corker.
Þessar breytingar eru í takt við það sem forsetinn og ráðamenn í stjórn Donalds Trump hafa sagt. Tillögurnar endurspegla breyttar áherslur ríkisstjórnar sem vill draga saman seglin í utanríkismálum Bandaríkjanna og flytja meira af almannafé til hersins.
Þær stöður sem stjórnvöld vilja að felldar verði niður eru ráðgjafar um réttindi fatlaðra, um friðarumleitanir í Afríku og um lokun fangelsisins í Guantanamo Bay á Kúbu. Þá er lagt til að staða sérstaks sendifulltrúa gagnvart samfélögum múslima verði felld niður auk sendinefndar gagnvart Islömsku samstarfsstofnuninni.
Þær stöður sem ekki er lagt til að lagðar verði niður eru til dæmis sendinefnd gagnvart friðarumleitunum milli Ísrael og Palestínu, fulltrúi Bandaríkjanna um stefnu vegna Norður-Kóreu, fulltrúi forsetans í uppbyggingu hernaðarbandalags gegn Islamska ríkinu og staða sérstaks fulltrúa vegna verslunar og viðskipta.
Þá er ekki lagt til að stöður sendinefnda um trúfrelsi, réttindi LGBT-fólks, stríðsglæpi, gyðingahatur og bandaríska fanga verði felldar niður.