Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur harðlega gagnrýnt og fordæmt flugskeytasendingar Norður-Kóreu yfir japanskt yfirráðasvæði, en stjórnvöld í Norður-Kóreu segja þau aðeins upphafið af frekari skotum yfir japanskt yfirráðasvæði og Kyrrahaf. Viðvörunarkerfi fór í gang í Japan, þar sem flugskeytin flugu yfir áður en þau lentu í Kyrrahafi, og voru íbúar beðnir um að leita skjóls, helst í kjöllurum húsa.
Frá þessu greinir breska ríkisútvarpið BBC. Samstaða náðist í öryggisráðinu um að fordæma Norður-Kóreu og var Kína með í þeirri samstöðu, en oftar en ekki hefur landið haldið hlífiskildi yfir Norður-Kóreu á vettvangi öryggisráðsins.
Stjórnvöld í Kína segja nú að þau muni taka þátt í aðgerðum annarra ríkja í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna eldflaugaskots Norður-Kóreu yfir Japan. Þetta kom fram í máli utanríkisráðherra Kína, Wang Yi, eftir að öryggisráðið hafði einróma fordæmt eldflaugaskotið.
Fulltrúi Japans í öryggisráðinu hefur lagt til að nýjar refsiaðgerðir verði lagðar á N-Kóreu.
Að sögn Wang mun Kína, sem er eini stóri bandamaður Norður-Kóreu, taka þátt með öðrum ríkjum öryggisráðsins í aðgerðum gegn Norður-Kóreu. Brugðist verði við og gripið til nauðsynlegra aðgerða vegna eldflaugaskotsins.
Sérstaklega hefur nú spennan á Kóreuskaga beinst að Guam, þar sem Bandaríkjaher er með herstöð. Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur sagt að „allt sé til reiðu“ ef það þarf að beita hervaldi vegna ógnarinnar frá Norður-Kóreu.
Stjórnvöld í Japan hafa krafist þess að alþjóðasamfélagið grípi fastar í taumana. Það öryggisleysi sem íbúar í Japan finni fyrir sé ólíðandi, og eitthvað sem ekki sé hægt að sætta sig við.