Þorsteinn Víglundsson, félagsmála- og jafnréttisráðherra, segir að Barnaverndarstofa hafi næg úrræði til að sinna því starfi sem meðferðarheimilið Háholt sinnti áður án þess að byggt hafi verið upp nýtt meðferðarúrræði á höfuðborgarsvæðinu. Fagleg rök hafi legið fyrir því að Háholti hafi verið lokað og hann telji að engin þörf hafi verið fyrir sig að grípa inn í það ferli.
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna, hefur óskaði í síðustu viku eftir fundi í velferðarnefnd Alþingis til að ræða málefni Háholts í Skagafirði. Meðferðarheimilinu var lokað 1. júlí síðastliðinn og Steinunn Þóra hefur óskað eftir því að fá skýringar af hverju vinna við nýtt meðferðarúrræða á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki hafist „þar sem þessi röð atburða bitnar á ungu fólki sem þarf á meðferð að halda núna“.
Kostnaður yfir 150 milljónir á ári en eftirspurn nánast engin
Háholt hefur starfað sem meðferðarheimili í næstum tvo áratugi. Reksturinn var einkarekstur sem hvíldi á þjónustusamningi við Barnaverndarstofu. Undanfarin ár hefur áherslan í starfi Barnaverndarstofu verið á svonefnda Fjölkerfameðferð, MST, og samhliða hefur dregið úr þörf á stofnanameðferð á borð við þá sem rekin var í Háholti. Vegna þessa hefur meðferðarheimilum skipulega verið lokað á undanförnum áratugum. Eftirspurn eftir þeim hefur einfaldlega verið arfaslök.
Þjónustusamningurinn við Háholt gilti fram til 1. september 2017 og kostaði um og yfir 150 milljónir króna á ári, samkvæmt upplýsingum frá Barnaverndarstofu. Samanlagt kostuðu árin þrjú sem hann náði yfir því á milli 450-500 milljónir króna.
„Skelfileg meðferð á opinberu fé“
Samkvæmt upplýsingum frá Barnaverndarstofu var einn einstaklingur vistaður á Háholti í kjölfar dóms frá því að þjónustusamningurinn var gerður. Sú vist stóð yfir í nokkra mánuði. Á þeim tíma sem þjónustusamningurinn var í gildi voru 1-3 einstaklingar verið vistaðir á Háholti að jafnaði.
Alls voru innritaðir einstaklingar sex á árinu 2014, þrír árið 2015 og sex á árinu 2016. Til samanburðar má nefna að 112 einstaklingar voru innritaðir í meðferðarúrræði Barnaverndarstofu á árinu 2016 til viðbótar við 47 sem nutu meðferðar á árinu, en höfðu innritast 2015. Nýting á úrræðinu var því mjög léleg.
Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, sagði í viðtali við Kjarnann í apríl að þetta hafi verið „skelfileg meðferð á opinberu fé.“
Þorsteinn Víglundsson segir að staða málsins í dag sé sú að Barnaverndarstofa sækist ekki eftir endurnýjun samninga við Háholt. Eftirspurn sé fyrst og fremst eftir þjónustu í námunda við heimili og miklu meiri áhersla sé nú á að veita börnum og foreldrum þjónustu saman. „Svona heimilum hefur verið lokað á undanförnum árum. Forstjóri Barnaverndarstofu kynnti fyrir mér faglegu rökin fyrir því að loka þeim og það er engin þörf fyir mig að grípa þarna inn í. Það væri óeðlilegt fyrir mig að grípa inn í þá faglegu ákvörðun Barnaverndarstofu. Hún hefur eftir sem áður næg úrræði til að sinna þvi sem hún þarf að sinna. Kostnaðarlega sé var einfaldlega ekki forsvaranlegt að halda þessu við.“
Búið er að taka ákvörðun um að byggja nýja meðferðarstofnun nær höfuðborgarsvæðinu. Því verkefni hefur þegar verið tryggt fjárheimild til uppbyggingar og rekstrarfé. Þorsteinn segir að Framkvæmdarsýsla ríkisins sé með málið á sínu borði og þurfi að finna stofnuninni staðsetningu.