„Umhverfisstofnun hefur tekið ákvörðun um að stöðva starfsemi Sameinaðs Sílikons hf., sbr. 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga, nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir. Fyrirtækinu hefur verið kynnt sú ákvörðun með bréfi. Óheimilt er að endurræsa ofn verksmiðjunnar nema með skriflegri heimild frá Umhverfisstofnun að loknum fullnægjandi endurbótum og ítarlegu mati á þeim.“
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Umhverfisstofnun.
Í bréfi stofnunarinnar vegna þessa, segir meðal annars að mengun frá starfseminni hafi verið óviðunandi og ekki hafi tekist að koma í veg fyrir hana.
Óskað hefur verið eftir greiðslustöðvun kísilverksmiðjunnar, eins og fram hefur komið. United Silicon rekur kísilmálmverksmiðju í Helguvík. Félagið óskaði eftir greiðslustöðvun 14. ágúst síðastliðinn. Ástæðan eru erfiðleikar í rekstri kísilmálmverksmiðjunni sem hóf framleiðslu í nóvember 2016, og rekja má til síendurtekinna bilana í búnaði sem hafa valdið félaginu miklu tjóni. Nýfallinn gerðardómur í deilu félagsins við ÍAV hf. eykur enn á óvissu félagsins. Samkvæmt honum þarf United Silicon að greiða ÍAV um einn milljarð króna.
Á meðal hluthafa og lánveitenda þess eru Arion banki og íslenskir lífeyrissjóðir. Í afkomutilkynningu Arion banka segir að ljóst sé að félagið þarfnist aukins fjármagns svo bæta megi búnað og aðstöðu svo verksmiðjan standist framleiðslumarkmið og gæðakröfur sem sett hafa verið. Arion banki hefur lánað átta milljarða til verkefnisins.
Því er ljóst að núverandi hluthafar United Silicon hafa að öllum líkindum tapað eignarhlut sínum í félaginu, lánveitendur þess munu þurfa að gefa eftir hluta af kröfum sínum og endurskipulagning fara fram.