Donald Trump, Bandaríkjaforseti, er sagður ætla að biðja Bandaríkjaþing um að samþykkja tæplega sex milljarða Bandaríkjadala neyðaraðstoð til íbúa í Houston, vegna tjóns sem fellibylurinn Harvey hefur valdið í borginni og nágrenni.
Stjórnvöld í Houston telja hins vegar að uppbygging í borginni kosti í það minnsta 125 milljarða Bandaríkjadala, að því er fram kemur á vef BBC, og hafa þegar krafist þess að bandarísk stjórnvöld bregðist við hrikalegum afleiðingum fellibylsins.
Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, heimsótti hamfarasvæðin í gær og lofaði fólki þar að bandarísk yfirvöld ætluðu sér að endurbyggja það sem þyrfti að endurbyggja, og gera það „betur en nokkru sinni“.
Í það minnsta 39 hafa látið lífið vegna fellibylsins en eignatjón er gífurlegt. Veðurfræðingar unnu náið með yfirvöldum í Texas áður en fellibylurinn gekk á land, og er talið að vel skipulögð björgunarvinna hafi bjargað því að ekki fór verra.
Trump hefur sjálfur líst því yfir, að hann ætli persónulega að styrkja hjálparstarf og fórnarlömb fellibylsins með einni milljón Bandaríkjadala, eða sem nemur um 105 milljónum króna.
Yfirvöld í Texas reikna með að í það minnsta fjóra mánuði muni taka að ná glöggri mynd á það, hversu mikið tjónið er. Íbúar í Houston eru 2,3 milljónir og er borgin stærsta borg Texas ríkis.