Júlíus Vífill Ingvarsson, fyrrverandi borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, er grunaður um stórfelld skattsvik og peningaþvætti. Hann er til rannsóknar hjá embætti Héraðssaksóknara vegna þessa. RÚV greinir frá þessu á vef sínum í dag.
Mál Júlíusar Vífils komst til umfjöllunar eftir að gögn úr Panamaskjölunum svokölluðu var lekið til fjölmiðla vorið 2016. Skattrannsóknarstjóri kærði Júlíus Vífil í byrjun árs 2017 á þeim grundvelli að Júlíus Vífill hafi ekki gert grein fyrir fjármunum sínum sem hann átti erlendis á árunum 2010 til 2015.
Systkini Júlíusar og erfingjar foreldra hans hafa sakað hann og bróður hans um að komið ættarauð foreldra þeirra undan og geymt hann á aflandsreikningum. Þær upphæðir hlaupa líklega á mörg hundruð milljónum króna, samkvæmt umfjöllun Kastljóss.
Sigurði G. Guðjónssyni, lögmanni hefur verið bannað í Hæstarétti að vera verjandi Júlíusar Vífils í málinu því Héraðssaksóknari hyggist kalla Sigurð til skýrslutöku. Saksóknarinn útilokar heldur ekki að Sigurður fái stöðu sakbornings í málinu.
Þeir Sigurður og Júlíus heyrast ræða fjármunina á sáttafundi nokkurra deiluaðilanna á hljóðupptöku sem send var nafnlaust inn á borð Skattrannsóknarstjóra. Upptakan er ástæða þess að Héraðssaksóknari vill taka skýrslu af Sigurði.
Júlíus Vífill og Sigurður vildu ekki tjá sig við fréttastofu RÚV.