Valdhafar í Moskvu eru sagðir íhuga að stilla kvenkyns frambjóðanda upp gegn Vladimír Pútín, sitjandi forseta Rússlands, í forsetakosningunum á næsta ári. Þetta hafa rússneskir fjölmiðlar eftir embættismönnum á skrifstofu forsetans.
Opinber afstaða Kremlar er hins vegar að þar hafi ekki verið rætt að kona taki þátt í kosningunum. Frá þessu er greint á vef The Moscow Times.
Undirbúningur forsetakosninganna er nú í fullum gangi, jafnvel þó Vladimír Pútín hafi ekki sagt af eða á um hvort hann ætli að gefa kost á sér á nýjan leik. Allir búast þó við að hann ákveði að fara í framboð og að hann vinni með miklum mun.
Kjarninn greindi frá því í sumar að Pútin hafi farið í veiðiferð með félögum sínum til Síberíu og spókað sig um ber að ofan. Var það talið vera upphaf kosningabaráttunnar og til þess að undirstrika kraftakallaímynd Pútíns með rússnesku þjóðarinnar.
Ef Pútín ákveður að gefa kost á sér er talið líklegt að framboð hans verði sjálfstætt, þe. ekki undir merkjum Sameinaðs Rússlands, stjórnmálaflokksins sem stjórnar bæði framkvæmdavaldi og löggjafarvaldi í Rússlandi. Sjálfstætt framboð muni hjálpa hinum vinsæla leiðtoga í forsetakjörinu.
Kvenkyns frambjóðandi eykur áhuga
Stjórnvöld Moskvu eru sögð róa að því öllum árum að slá kosningaþátttökumet í Rússlandi í forsetakosningunum 2018. Búið er að ákveða hverjir fá að ekki að taka þátt í kjörinu og verið að stilla upp frambjóðendum. Ítök rússneskra stjórnvalda eru mikil.
Til þess að auka áhuga á kosningunum er ráðgert að ein kona fái að bjóða sig fram. Kvenkyns frambjóðandi mun hafa mikil áhrif á kosningarnar og hjálpa til við að gera umfjöllunarefni kosningabaráttunnar fjölbreyttari. Nokkrar konur hafa verið nefndar sem frambærilegir kostir í þessum efnum.
Natalya Poklonskaya er ein þeirra. Hún er þingkona fyrir Krímskaga í Dúmunni, þjóðþingi Rússlands. Hún er talin geta leikið af fingrum fram í kosningabaráttunni og getur boðið fram óháð stjórnmálaflokkum. Yelena Mizulina er önnur sem nefnd hefur verið. Mizulina situr í Sambandsríkisráði Rússlands.
Það er þó ekki hættulaust fyrir Pútín að tefla fram kvenkyns mótframbjóðanda í kosningum sem hann vill vinna með miklum mun. Konstantin Kalachyov, rússneskur stjórnmálafræðingur, sem rætt er við í The Moscow Times telur það hættulegan draum enda eru konur helstu kjósendur Pútíns. Aðrir stjórnmálafræðingar sem rætt er við segja kvenkyns frambjóðanda geta sefað pirring og þreytu gagnvart sömu gömlu karlkyns andlitunum í kosningunum.
Ein þeirra sem álitin er góður frambjóðandi gegn Pútín er blaðakonan Ksenia Sobchak. Henni er lýst sem fullkomnum mótframbjóðanda gegn Pútín. Hún er sögð vera rússnesk fyrirmyndarkona – snjöll, ung og áhugaverð nútímakona. Þó er óvíst hvort hún vilji yfir höfuð taka þátt. Hún skrifaði á Instagram-síðu sína á föstudag: Ég veit ekki hver talar um hvað í hærri stigum valdsins, en ég hef fylgst með stjórnmálalandslaginu í langan tíma. Ég hef aðeins eina sjúkdómsgreiningu: Stjórnmálin ykkar í dag, herramenn, eru dapurleg hrúga af rugli.“
Tvær konur hafa boðið sig fram til forseta í Rússlandi á síðustu 20 árum. Ella Pamfilova fékk eitt prósent atkvæða í kosningunum árið 2000 þegar Pútín var kjörinn í fyrsta sinn. Irina Khakamada fékk svo tæplega fjögur prósent í kosningunum 2004 þegar Pútín vann í annað sinn.