Her Suður-Kóreu, sem nýtur mikils stuðnings Bandaríkjanna, er nú með stóra heræfingu á Japanhafi þar sem flugskeytum er skotið af herskipum og skotpöllum. Stjórnvöld segja her landsins í viðbragðsstöðu ef til átaka kemur, en spennan á Kóreguskaga er nú mikil.
Neyðarráð Suður-Kóreu hefur nú þegar krafist þess að Norður-Kórea verði beitt strangari þvingunum til að draga úr hernaðarmæti.
Nú þegar hefur Norður-Kórea framkvæmt sex tilraunir með kjarnorkuvopn. Sú síðasta fór fram í síðustu viku þar sem kjarnorkusprengja var sprengd, og skapaði hún jarðskjálfta upp á 6,3. Hann fannst vel í Suður-Kóreu og einnig í Kína.
Í umfjöllun New York Times segir að Kim Jong Un, leiðtogi Norður-Kóreu, sé að „biðja um stríð“ og er þar vitnað til embættismanna í Hvíta húsinu. Bandarísk stjórnvöld vilja að Sameinuðu þjóðirnir stýri ferðinni, samkvæmt umfjöllun New York Times.
Nikki R. Haley, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum, hefur ítrekað þá afstöðu Bandaríkjanna að nú þýði ekkert að láta frá sér orðin tóm. Aðgerðir, sem dragi úr spennunni á Kóreuskaga, séu nauðsynlegar og tafarlaust þurfi Norður-Kórea að hætti öllum hernaðarumsvifum.
Ekkert bendir til þess að stjórnvöld í Norður-Kóreu ætli sér að hætta tilraunum með flugskeyti eða kjarnorkuvopn. Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur varað Norður-Kóreu við því að halda áfram tilraunum sínum og segir að Bandaríkjaher sé tilbúinn að beita hervaldi til að verja bandamenn sína, og muni þá beita yfirburðum sínum af fullum þunga.