Han Tae Song, fulltrúi Norður-Kóreu hjá Sameinuðu þjóðunum, segir að Norður-Kórea muni halda áfram að senda Bandaríkjunum „gjafir“, en í viðtali við Reuters fagnar hann árangri kjarnorkuvopnatilrauna Norður-Kóreu.
Hann segir að stjórnvöld séu ánægð með þróun mála, og að tilraunirnar séu í sjálfsvarnarskyni og beinist einungis að Bandaríkjunum.
Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur þegar fordæmt tilraunir Norður-Kóreu, og krafist þess að þjóðir heimsins taki höndum saman í þvingunaraðgerðum. Vladímir Pútín, forseti Rússlands, segir efnahagslegar þvinganir engu breyta fyrir Norður-Kóreu. Ræða þurfi um friðsamar lausnir á pólitískum forsendum.
Stjórnvöld í nágrannaríkjum Norður-Kóreu, Suður-Kóreu og Japan, segja að þolinmæðin sé búin, og að alþjóðasamfélagið þurfi að taka hættuna af mögulegri árás Norður-Kóreu alvarlega. Nú þegar hafa flugskeyti flogið fyrir japanskt land, og fóru meðal annars viðvaranaflautur í gangi á því svæði.
Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að Bandaríkin ætli sér að hætta viðskiptum við allar þjóðir sem stundi viðskipti við Norður-Kóreu. Þau ummæli duga skammt, enda viðskiptasamband Bandaríkjanna við helsta viðskiptabandamann Norður-Kóreu, Kína, bæði umfangsmikið og ómögulegt að rekja það upp.