Kaupverðið fyrir fjölmarga af miðlum Pressunnar, sem seldir voru í vikunni til félags sem Sigurður G. Guðjónsson veitir forsvar fyrir, var á sjötta hundrað milljónir króna. Greitt var fyrir miðlanna með reiðufé auk yfirtöku skulda. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Pressunni og Frjálsri fjölmiðlun, félaginu sem keypti umrædda miðla. Þeir eru DV, DV.is, Eyjan, Pressan, Bleikt, Birta, Doktor.is, 433 og sjónvarpsstöðin ÍNN.
Þar kemur einnig fram að allt starfsfólk viðkomandi fjölmiðla heldur störfum sínum eftir viðskiptin, utan að Björn Ingi Hrafnsson, sem verið hefur útgefandi fjölmiðlanna, hverfur til annarra starfa.
Björn Ingi segir í tilkynningunni að hann sé gríðarlega stoltur af viðskiptunum og finni fyrir miklum létti. Hann ætli nú að taka sér frí, sem hann þurfi á að halda. „Með þessari sölu tekst að greiða niður skuldir, að tryggja rekstur mikilvægra fjölmiðla í okkar samfélagi og tryggja hagsmuni kröfuhafa. Það höfum við gert og ég hygg að umfang þessara viðskipta komi ýmsum á óvart í ljósi þess að ýmsir hafa reynt að tala virði þessara fjölmiðla niður á opinberum vettvangi.
Sigurður G. Guðjónsson, stjórnarformaður og eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar, segir mikilvægt að Ísland eigi öfluga fjölmiðla. „Ég hef fylgst með þessum rekstri og veit að þarna vinnur ákaflega hæft fólk. Framundan er spennandi tími, þar sem ég vonast til að sjá þessa fjölmiðla vaxa og dafna.“