Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, hefur ítrekað kröfu borgarinnar um að svokölluð ytri leið verði valin Sundabraut. Vegagerðin hefur lagt til að farin verði svokölluð innri leið yfir Kleppsvík í staðinn. Borgin ætlar ekki að greiða kostnaðarmismun vegna aukins kostnaðar við ytri leiðina.
Um er að ræða gamalt þrætuepli sem komst aftur í umræðuna í vor. Þverun Kleppsvíkur er talin verða mikilvæg samgöngubót í borginni og létta álagi af öðrum stofnæðum til og frá og innan Reykjavíkur. Borgin hefur hins vegar alltaf reiknað með því að Sundabraut verði lögð í göng undir Kleppsvík og þá mun utar en Vegagerðin telur hagkvæmast.
Fjallað var um allar tillögur um legu Sundabrautar í ítarlegri fréttaskýringu Kjarnans í sumar. Þar var mismunandi sjónarmiðum velt upp og helstu ásteytingarsteinum lýst.
Innri leiðin kostar minna
Samkvæmt því kostnaðarmati sem liggur fyrir þá eru framkvæmdir við innri leið Sundabrautar mun ódýrari en ytri leiðin, hvort sem ytri leiðin yrði lögð í stokk undir víkina eða á hábrú.
Vegamálastjóri hefur þess vegna lagt til að innri leiðin verði framkvæmd og hótað því að borgin verði rukkuð um mismuninn ef ytri leiðin verði farin. Jón Gunnarsson, ráðherra samgöngumála, hefur tekið undir þessi sjónarmið vegamálastjóra. Formleg tillaga Vegagerðarinnar hefur hins vegar aldrei borist Reykjavíkurborg.
Dagur skrifar í vikulegum pósti sínum sem barst á föstudaginn að borgin hafni þessum hugmyndum. „[S]líkri reglu hefur aldrei verið beitt á Íslandi og miklu nær að setjast að einu borði, uppfæra kostnaðaráætlanir og rýna bestu lausnir í þessu mikilvæga og stóra máli.“
Kostnaðaráætlanirnar sem enn er stuðst við eru síðan 2004 og þess vegna ljóst að þær áætlanir séu orðnar úteltar. Í því kostnaðarmati var gert ráð fyrir að innri leiðin myndi kosta 7,3 milljarða króna, miðað við 11,6 milljarða króna fyrir ytri leið á hábrú og 13,1 milljarð króna fyrir sömu leið í jarðgöngum.
Snýst um umferðardreifingu og álag
Ástæða þess að Reykjavíkurborg hefur lagt áherslu á að ytri leiðin verði farin snýr að skipulagi borgarinnar. Betri dreifingu umferðar má ná með ytri leiðinni; Í stað þess að dreifa umferð um þegar umferðarþunga Miklubraut, verði hægt að veita umferðinni um Sæbrautina í auknum mæli.
Í bréfi Dags borgarstjóra til Hreins Haraldssonar vegamálastjóra segir einnig að Reykjavíkurborg hafi átt í samráði við íbúa í Laugardal og Grafarvogi þar sem sátt hafi náðst um að ytri leiðin í göngum væri ákjósanlegust. „Stefna borgarstjórnar um Sundabraut í göngum hefur ekki breyst. Formenn íbúasamtaka í Grafarvogi og Laugardal hafa staðfest að afstaða íbúasamtakanna sé jafnframt óbreytt,“ skrifar Dagur í bréfi sínu.