Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lýst yfir hamfaraástandi á Florída eftir að fellibylurinn Irma gekk yfir skagann og for upp með vesturströnd hans í gær og í nótt. Bandarísk yfirvöld vinna nú með ríkisstjórn Florída að því að kortleggja stöðuna á hverjum tíma, skipuleggja björgunarstarf og bregðast við vandamálum sem koma upp.
Ljóst er að tjón er gífurlegt, og eru milljónir manna án rafmagns. Um 6,3 milljónir manna í Miami og víðar í Florída fengu leiðbeiningar frá ríkisstjórn Florída um að yfirgefa heimili sín áður en fellibylurinn skall á.
Samkvæmt fréttum New York Times er styrkurinn fellibylsins nú á 1. stigi, en hann var í efsta stigi – 5. stigi – þegar hann koma að Florída. Mikið vatnsveður fylgir honum og flóð eru vítt og breitt um þau svæði þar sem áhrifa fellibylsins gætti mest.
Mikill undirbúningar og rýmingar björguðu tugþúsundum mannslífa, að því er talið er, en veðurfræðingar stýrðu skipulagi rýminga ásamt ríkisstjórn Florída í aðdraganda þess að fellibylurinn gekk á land.
Irma olli gífurlegu eignatjóni á eyjum í Karíbahafi, þar sem milljónir manna misstu heimili sín og innviðir voru lagðir í rúst. Mikið uppbyggingarstarf bíður þeirra svæða þar sem fellibylurinn fór yfir. Næstu vikur og mánuði mun koma í ljós hversu mikið tjónið verður, í peningum mælt, í en ljóst þykir að langan tíma muni taka að koma hlutunum í þá stöðu að uppbygging og hefðbundið daglegt líf geti hafist fyrir alvöru.
Rýmingaráætlanirnir í Miami og nágrenni eru með umfangsmestu aðgerðum sem ríkisstjórnir Bandaríkjanna hafa þurft að grípa til vegna náttúruhamfara.