Ríkisstjórn Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs, fékk 89 þingmenn kjörna í þingkosningunum í Noregi en minnihlutinn 80 miðað stöðuna þegar 95 prósent atkvæða hvað verið talin, samkvæmt vef norska ríkisútvarpsins NRK. Mikil spenna var í aðdraganda kosninga enda sýndu kannanir að mjótt var á munum.
Kjörtímabilið í Noregi er fjögur ár og eru kosnir 169 fulltrúar til að sitja á norska Stórþinginu.
Átta flokkar eiga fulltrúa á fráfarandi þingi. Minnihlutastjórn Hægri-flokksins og Framfaraflokksins hefur setið í Noregi undanfarin fjögur ár, með stuðningi Kristilega þjóðarflokksins og miðjuflokksins Venstre.
Erna Solberg, leiðtogi Hægri flokksins, hefur gegnt embætti forsætisráðherra.
Niðurstaðan þykir mikið áfall fyrir Jonas Gahr Støre, formann Verkamannaflokksins, og eru þegar farnar að heyrast raddir um að hans pólitíski ferill sé á leiðarenda kominn, að því er fram kemur á vef NRK.
Verkamannaflokkurinn fékk 27,4 prósent atkvæða, en það er lækkun um 3,4 prósentur frá síðustu kosningum. Samtals missir flokkurinn sex þingmenn, frá síðustu kosningum. Þrátt fyrir að vera enn stærsti flokkur Noregs þá er útkoman áfall fyrir flokkinn, og vinstri væng norskra stjórnmála.