Þrír vinir Roberts Downey, sem hlaut dóm fyrir að níðast á börnum, vottuðu góða hegðun hans í umsóknarferli hans fyrir því að fá uppreist æru.
Þetta kemur fram í gögnum sem birt hafa verið á vef Dómsmálaráðuneytisins, en áður hafði ráðuneytið neitað fjölmiðlum um aðgang að því. Fréttastofa RÚV kærði málið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál, og niðurstaðan var sú að gögnin ætti að birta og var það gert á fimmta tímanum í dag.
Mennirnir þrír eru Halldór Einarsson atvinnurekandi, Viðar Marel Jóhannsson kennari og Gautur Elvar Gunnarsson lögfræðingur og fulltrúi hjá sýslumanni. Halldór og Viðar Marel hafa þekkt Robert áratugum saman, samkvæmt umsögnunum.
Halldór segir í umsögn sinni að hann hafi þekkt Róbert Árna frá barnæsku og geti með góðri samvisku fullyrt að Róbert Árni hafi „hegðað sér óaðfinnanlega í lífi og starfi frá því, að hann kom úr fangelsi“. Hann segir traust og trúnað ríkja í þeirra vináttu.
Viðar Marel segir í sinni umsögn að hann viti að það sem hann var dæmdur fyrir muni ekki endurtaka sig. „Ég veit, að mannkostir hans munu reynast honum vel, og að það, sem hann var dæmdur fyrir, mun ekki endurtaka sig,“ segir Viðar í umsögn sinni.
Gautur Elvar segist hafa þekkt Róbert Árna um langa hríð, af góðu einu bæði persónulega og í starfi. Hann mælir með því að Robert fái uppreisn æru og telur hann verðugan til þess. Hann segir hegðun Roberts hafa verið „óaðfinnanlega“ frá því hann lauk afplánun.