Björt Ólafsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, segir að það sé verið að taka peninga fram yfir heilsu og lífsgæði íbúa í Reykjanesbæ þegar kemur að uppbyggingu stóriðju í Helguvík.
Hún gagnrýnir ívilnunarsamninga sem síðasta ríkisstjórn gerði við stóriðjufyrirtæki harðlega. „Þetta er alls ekki boðlegt. Þetta eru byrðar á herðum okkar sem við verðum að takast á við, og við gerum það ekki nema að taka erfiðar ákvarðanir hvað varðar fjármagnið.“ Þetta kemur fram í nýjasta þætti Kjarnans á Hringbraut þar sem staða United Silicon og frekari stóriðjuuppbygging í Helguvík er til umfjöllunar. Þáttur er á dagskrá í kvöld klukkan 21.
Björt segir þar að stjórnmálamenn, bæði á sveitarstjórnarstigi og við ríkisstjórnarborðið, þurfi að fara að spyrja sig hvort sé mikilvægara heilsa og velferð almennings eða það að verja „vitlausar fjárfestingar“ sem ráðist hefur verið í á kostnað almennings. „Ég held að fólk verði að spyrja sig hvort ekki sé komið nóg og hvort ekki sé skynsamlegra að hætta núna áður en við erum komin í dýpri súpu og í meiri vandræði.“
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, er einnig gestur þáttarins. Hann tekur undir með Björt um að umræðan um þessa uppbyggingu hafi verið nokkuð föst í fjárhagslega anga hennar í von um að hlutirnir muni lagast. „Ef það gerir það ekki þá munu menn láta líðan og heilsu íbúanna ganga fyrir. Það þarf enginn að velkjast í vafa um það.“
Aðspurður um hvort það sé forsvaranlegt að halda starfsemi Unites Silicon áfram þá segir Kjartan svo ekki vera nema að forsendur breytist.