Sigríður Andersen dómsmálaráðherra braut lög við skipun Landréttardómara. Þetta er niðurstaða héraðsdóms sem kveðin var upp í dag. Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að dómsmálaráðherra hefði átt að óska eftir nýju áliti dómnefndar um hæfi umsækjenda um dómarastöðu, ef hún taldi annmarka á áliti dómnefndarinnar.
Uppfært klukkan 14:44: Áréttað er að íslenska ríkið var sýknað af kröfum stefnenda og málskostnaður fellur niður. Ljóst er að ráðherra var heimilt að leggja til skipun annarra umsækjenda en þeirra sem dómnefnd taldi hæfasta. „Það breytir hins vegar ekki því að ráðherra bara eftir sem áður stjórnskipulega ábyrgð á skipun dómara við Landsrétt [...] og var við hana bundinn af almennum reglum stjórnsýsluréttarins, bæði hvað varðar meðferð málsins sem og þá efnislegu ákvörðun sem ráðherra tók þegar hún lagði til við Alþingi að tilteknir einstaklingar yrðu skipaðir í embætti dómara,“ segir í dómnum.
Dóminn má lesa í heild sinni hér.
Það er talið vera brot gegn dómstólalögum og reglum stjórnsýsluréttar að ekki hafi verið borin saman hæfni og reynsla dómaraefna. Rökstuðningurinn hafi verið óljós og heildstæður samanburður á umsækjendum hafi ekki farið fram. „Ekki verður því fullyrt að ráðherra hafi valið 15 hæfustu einstaklingana í Landsrétt.“
Í niðurstöðukafla dómsins er tekið fram að „stjórnsýslumeðferð ráðherra hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga nr. 50/2016 sem og skráðar og óskráðar reglur stjórnsýsluréttarins um rannsókn máls, mat á hæfni umsækjenda og innbyrðis samanburð þeirra.“
Ríkið var sýknað af bótakröfum Ástráðs Haraldssonar sem höfðaði mál gegn ríkinu vegna þess að hann fékk ekki dómarstöðu við Landsrétt. Hann hefur ákveðið að áfrýja þeim þætti málsins til Hæstaréttar sem lýtur að bótakröfu, að því er kemur fram í tilkynningu frá lögmanni Ástráðs.