Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segist ætla að gefa Guðna Th. Jóhannessyni, forseta Íslands, svar eftir helgi um það hvort ráðherrar flokks hans taki sæti í starfsstjórninni fram að kosningum.
Ráðgjafaráð Viðreisnar hefur ályktað að núverandi forsætisráðherra og dómsmálaráðherra, þau Bjarni Benediktsson og Sigríður Andersen, geti ekki setið áfram á ráðherrastólum á meðan rannsókn málsins stendur. Viðreisn muni ekki starfa í ríkisstjórn þar sem Bjarni og Sigríður starfa einnig.
Guðni félst á lausnarbeiðni Bjarna Benediktssonar í hádeginu og óskaði eftir því að ráðherrar í ráðuneyti hans myndi starfa áfram í svokallaðri starfsstjórn fram að kosningum. Benedikt segist ekki hafa gefið svar af eða á um þetta á fundi sínum með forsetanum í dag. Það muni hann gera eftir helgi.
„Við munum taka þátt í starfsstjórninni að minnsta kosti um helgina. Það þarf að vega og meta þetta. Starfsstjórn er allt annað en venjuleg ríkisstjórn. Starfstjórn felst í því að manna ráðuneytin,“ sagði Benedikt og ítrekaði að pólitísku samstarfi þessarar ríkisstjórnar væri lokið. „Þessu meirihlutasamstarfi er lokið. Það verða ekki einu sinni haldnir ríkisstjórnarfundir á þessu tímabili [fram að kosningum]. Við verðum að gera þennan skýra greinarmun.“
Ráðgjafaráð Viðreisnar er skipað stjórn Viðreisnar, þingflokknum, formönnum málefnanefnda og stjórnum landshlutaráða. Ráðið var kallað saman í dag. Í ljósi „þeirrar alvarlegu stöðu og trúnaðarbrests sem kominn er upp,“ telur ráðgjafaráðið farsælast fyrir þjóðina að þing sé rofið og gengið sé til kosninga að nýju.