Gögnin er varða uppreist æru sem dómsmálaráðuneytinu hefur verið gert að veita fjölmiðlum aðgang að verða ekki opinberuð fyrr en eftir helgi, að því er Fréttablaðið hefur eftir ráðuneytisstarfsmönnum.
Blaðamenn hafa óskað eftir aðgangi að málsgögnunum í málum þeirra einstaklinga sem stjórnvöld hafa veitt uppreist æru en ráðuneytið hefur ekki viljað gera það á grundvelli persónuverndar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál kvað upp úrskurð sinn í vikunni þar sem dómsmálaráðuneytinu er gert að afhenda gögnin.
Aðeins hafa gögnin í máli Roberts Downey verið opinberuð. Alls eru gögn í málum 32 einstaklinga sem ráðuneytið þarf að afhenda. Fjórtán einstaklingar hafi fengið uppreist æru á grundvelli undanþáguheimildar í hegningarlögum en hinir átján hafi farið leið meginreglunnar. Robert Downey er einn þeirra fjórtán sem veitt var uppreist æru með vísan til hegningarlaga.
Fyrri part dags í gær var stefnt að því að afhenda gögnin fyrir hádegið, en þegar leið á daginn „var komið annað hljóð í strokkinn“, að sögn Fréttablaðsins og þá stefnt að því að birta gögnin eftir helgina.